Viðskipti innlent

Íhuga að loka þriðjungi útibúa

Til greina hefur komið að loka þriðjungi útibúa Íslandsbanka. Ákveðið hefur verið að leggja niður fjögur útibú hvað sem síðar verður. Útibúin sem lögð verða niður samkvæmt heimildumfréttastofu Bylgjunnar eru að Hrísalundi á Akureyri, Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði, Réttarholtsvegi í Reykjavík og Laugavegi 172 í Reykjavík. Þetta er samkvæmt heimildum niðurstaða eftir úttekt dansks ráðgjafafyrirtækis, en meðal þess sem þá var skoðað var að loka allt að níu útibúum sem er um þriðjungur útibúa því þau eru 29. Heimildarmaður fréttastofunnar segir önnur fimm útibú til skoðunar, en þau eru í Smáralind í Kópavogi, við Háaleitisbraut í Reykjavík, í Skútuvogi í Reykjavík og á Siglufirði. Hvaða útibú er hið fimmta á þessum lista er fréttastofunni ekki kunnugt um. Eftir því sem fréttastofan kemst næst, var málið afgreitt formlega á fundi bankastjórnar í gær en lokun útibúanna fjögurra var kynnt á fundi útibússtjóra í fyrradag, eða sólarhring áður en bankastjórnin afgreiddi málið formlega. Hagræðingu er borið við í tengslum við fækkun útibúa en annað sem menn telja sig sjá einnig í þessu er áherslubreyting hjá bankanum, það er að hverfa frá því að vera viðskiptabanki sem sinnir mörgum og smáum viðskiptavinum og yfir í það að vera fjárfestingarbanki.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×