Viðskipti innlent

Níunda besta viðskiptaumhverfið

Ísland er samkeppnishæfasta land Evrópu og í 9.-10. sæti á lista yfir þau lönd þar sem viðskiptaumhverfið er best í heiminum. Hér er til dæmis mjög auðvelt að stofna fyrirtæki og hagvöxtur er mikill. Viðskiptaumhverfið á Íslandi fer greinilega batnandi. Samtök atvinnulífsins auglýsa nú grimmt að Ísland sé samkeppnishæfasta land Evrópu og fimmta samkeppnishæfasta land heims, samkvæmt Heimssamkeppnisárbók IMD-viðskiptaháskólans í Sviss. 323 atriði í efnahagslífinu og umhverfi þess eru tekin til skoðunar hverju sinni og hefur Ísland siglt hægt og örugglega upp listann undanfarin ár. Aðeins Bandaríkin, Singapúr, Kanada og Ástralía eru talin samkeppnishæfari. Á hádegisverðarfundi Verslunarráðs í gær voru einnig kynntar niðurstöður könnunar Alþjóðabankans yfir þau lönd þar sem viðskiptaumhverfi er best og þó að skýrslan komi ekki út fyrr en í haust má ætla að Ísland lendi um það bil í 9.-10. sæti á listanum af 150. Ísland hefur ekki áður tekið þátt í þessari könnun þar sem farið er yfir fjölmörg atriði, svo sem skattalöggjöf, samkeppnisumhverfi, vinnulöggjöf, fjármálamarkaðinn og ýmislegt fleira sem skiptir máli í viðskiptaumhverfinu. Meðal þess sem telst mjög jákvætt er að það tekur ekki nema fimm daga að stofna fyrirtæki hérlendis en meðaltalið í löndunum 150 er fjörutíu og níu dagar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×