Sport

Helgi Jónas breytir miklu

Vegna meiðsla hefur Helgi Jónas Guðfinnsson aðeins spilað fimm leiki með Grindavík í Intersportdeildinni í körfubolta í vetur en þegar þessi 29 ára bakvörður er í leikmannahópi liðsins má finna mikil batamerki á leik liðsins. Gengi Grindavíkur í vetur hefur verið ein samfelld hrakfallasaga og eftir að hafa unnið 35 af 44 leikjum og verið í tveimur efstu sætunum síðustu tvö tímabil er Grindavíkurliðið enn að berjast fyrir sæti inn í úrslitakeppnina í ár og hefur tapað einum leik fleira en liðið hefur unnið. Það skiptir því miklu máli að reynslumikill leikmaður eins og Helgi Jónas geti hjálpað til að rétta af skútuna því allir eru sammála um að Grindvíkingar hafi yfir góðum mannskap að ráða, mannskap sem gæti komist langt smelli liðið saman. Tölfræðin er líka sterk þegar kemur að mikilvægi Helga Jónasar. Grindavík hefur þannig unnið 4 af 5 leikjum sem Helgi Jónas hefur verið með í, þar á meðal þá tveir síðustu gegn ÍR og KFÍ, en hefur aðeins unnið 6 af hinum 16 leikjum liðsins án hans. Það má sjá mun á mörgum tölfræðiþáttum í þeim leikjum sem Helgi Jónas hefur tekið þátt í, töpuðu boltarnir eru þannig mun færri, liðið skorar meira, fær færri stig á sig og frákastar betur líkt og sést vel í töflunni sem fylgir. Það má heldur ekki gleyma því að Helgi og Páll Axel Vilbergsson ná vel saman og Páll fær mun betri skot með Helga sér við hlið eins og sést á því að Páll skorar fleiri þriggja stiga körfur og hittir 13,5% betur fyrir utan þriggja stiga línuna en þegar Helgi Jónas er ekki með. Mikill munur þegar Helgi Jónas er með:Mismunur (Með - án Helga Jónasar)Sigurhlutfall:  +42,5% (80% - 37,5%) Stigaskor: +3,8 (95,4 - 91,6) 3ja stiga skotnýting: +5,2% (39,3% - 34,1%) 3ja stiga körfur í leik: +1,2 (9,6 - 8,4) Tapaðir boltar í leik: -4,9 (13,6 - 18,5) Hlutfall frákasta: +3,5% (53,2% - 49,7%) Stigaskor mótherja: -9,1 (87,2 - 96,3) Skotnýting mótherja: -3,1% (44,5% - 47,6%) Áhrifin á Pál Axel Vilbergsson:Mismunur (Með - án Helga Jónasar)Stig í leik:  -0,3 (19,4 - 19,7) Skotnýting: +2,4%  (44,1% - 41,7%) 3ja stiga skotnýting: +13,5% (48,8% - 35,3%) 3ja stiga körfur í leik: +1,1 (4,4 - 3,3)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×