Sport

Sætið tryggt hjá nýliðum Hauka

Kvennalið Hauka náði langþráðu takmarki með 76-87 sigri á KR í Vesturbænum á þriðjudagskvöldið. Með þessum sigri tryggði nefnilega hið unga lið Haukanna (einn leikmaður yfir tvítugu) sér sæti í deildinni á næsta tímabili og spilar því sitt annað ár í deildinni í röð í fyrsta sinn síðan 1992. Haukar hafa 14 stig, 12 stigum meira en botnlið KR sem getur aðeins jafnað Haukaliðið á stigum en mun alltaf vera neðar þar sem Haukar hafa tryggðan betri innbyrðisárangur með þremur sigrum á KR í vetur. Næst á dagskrá hjá Haukum er að tryggja liðinu sæti í úrslitakeppninni í fyrsta sinn en úrslitakeppnin var sett á laggirnar fyrsta tímabilið eftir að kvennakarfan var lögð niður í félaginu haustið 1992. Kvennaboltinn var síðan endurvakinn á nýrri öld og þjálfarinn Ágúst Björgvinsson hefur unnið gott starf með Haukaliðið í vetur. Liðið hefur vaxið með hverjum leik og sigurinn gegn KR var sem dæmi þriðji sigurinn í fjórum deildarleikjum liðsins á nýja árinu. Eina tapið kom í Keflavík gegn toppliðinu sem hefur unnið alla 18 leiki sína í vetur með tíu stigum eða meira. Fyrir liðinu fer hin 16 ára Helena Sverrisdóttir sem hefur skorað 24,8 stig, tekið 14 fráköst og gefið 6 stoðsendingar að meðatali í 14 deildaleikjum liðsins í vetur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×