Sport

Pippen í málaferlum

Scottie Pippen, sem er best þekktur fyrir að vinna sex meistaratitla með Chicago Bulls í NBA-körfuboltanum, hefur stefnt fyrirtækinu Katten Muchen Zavis Rosenman og lögfræðingi þess fyrir vítavert gáleysi í samskiptum við sig. Í stefnunni segir m.a.: "Hann var svikinn af ráðgjöfum sínum og hefur vanræksla þeirra kostað Scottie og fjölskyldu margar milljónir dollara." Að sögn Robert P. Cummins, lögfræðings Pippens, eru engar sérstakar bótakröfur af hálfu skjólstæðings síns. "Það er hins vegar óhætt að fullyrða að tap Pippens hlaupi á a.m.k. 20 milljónum dollara," sagði Cummins. Harvey Silets, einn af eigendum fyrirtækisins Katten Muchen, sagði ásakanir Pippens ekki vera á traustum grunni reistar og að fyrirtækið myndi verja sig til fulls gagnvart þeim. Þess má geta að Pippen voru greiddar 11,8 milljónir dollara í skaðabætur í nóvember á síðasta ári eftir að hafa verið svikinn af fjármálaráðgjafa sínum þáverandi, Robert Lunn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×