Viðskipti innlent

Eignarhlutur M-Holding 94,4%

Gengi bréfa í yfirtökutilboði M-Holding ehf., félags í eigu Baugs Group, Straums Fjárfestingarbanka og B2B Holding, í Magasin du Nord var 162,5 danskar krónur á hvern hlut, eða tæplega 1822 íslenskar krónur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Straumi Fjárfestingarbanka. Þann 10. desember sl. gerði M-Holding öllum hluthöfum A/S Th. Wessel & Vett, Magasin du Nord tilboð í hlut þeirra í félaginu. Fráfarandi og núverandi stjórnir mæltu með tilboðinu. Tilboðið rann út þann 7. janúar og hafði M-Holding þá eignast alls 80,9% hlutafjár félagsins. M-Holding hafði jafnframt tryggt sér kauprétt á 13,5% hlut Magasin du Nord Fond. Verði sá kaupréttur nýttur verður eignarhlutinn alls 94,4% og mun M-Holding þá óska eftir innlausn á útistandandi hlutum í félaginu og afskrá það úr Kauphöllinni í Kaupmannahöfn. Vegna fréttaflutnings danskra og íslenskra fjölmiðla um yfirtöku M-Holding á Magasin vill Straumur taka fram að Kauphöllin í Kaupmannahöfn hefur sent frá sér bréf þess efnis að hún hafi hvorki athugasemdir við þau hlutafjárkaup M-Holding sem mynduðu yfirtökuskylduna, né við yfirtökutilboðið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×