Viðskipti innlent

Vísitalan hækkar einna mest hér

Hækkun á hlutabréfavísitölunni í Kauphöll Íslands hefur verið einna mest erlendra kauphalla. Á vefútgáfu Dagens Industri kemur fram að er mest á norðurlöndunum eða um 53 prósent meðan Norðmenn koma okkur næstir með 39 prósenta hækkun. Danir hafa 21 prósent, Svíar 17 og Finnar aðeins fjögur prósent. "Við erum mjög sátt við þróunina. Það er ekki nóg með að markaðurinn hafi hækkað töluvert og mikil veltuaukning orðið. Fyrirtækin nýta sér markaðinn mjög vel til að afla fjár og fjárfesta í fyrirtækjum erlendis, miklu meira en annars staðar í Evrópu. Fyrirtæki hér sækja sama fjármagn á íslenska markaðinn og öll fyrirtækin í Danmörku á danska markaðnum," segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands. Aðeins fjórar þjóðir hafa meiri hækkun hlutabréfavísitölu en við, í Úkraínu er hún 251 prósent, í Rúmeníu 100 prósent og í Ungverjalandi og Tékklandi 54 prósent. Ekki er vitað hvert þroskastigið er á þessum mörkuðum og ekki víst að þessar tölur gefi mikið til kynna. Veltan er víða lítil og markaðurinn óþroskaðri en hér. Hlutabréfavísitalan í Mexíkó hefur hækkað einna mest eða um 44 prósent og í Indónesíu um 42 prósent. Annars staðar hefur hún ekki hækkað jafn mikið. S&P 500, Nasdaq og Dow Jones vísitölurnar í New York hafa hækkað um 8, 7 og 3 prósent, í Tókýó um 5 prósent og í Hong Kong um 13 prósent. Í Kína er lækkun upp á 13 prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×