Viðskipti innlent

Kjötmjöl ehf til sölu

Milli jóla og nýárs funda forsvarsmenn förgunarverksmiðjunnar Kjötmjöls ehf. með hugsanlegum kaupendum. Fyrirtækið, sem brennir sláturúrgang í kjötmjöl, hefur átt í rekstrarerfiðleikum og blasir að sögn Torfa Áskelssonar verksmiðjustjóra lítið annað við en að hætta rekstrinum ef ekki rætist úr. Hann gagnrýnir að verksmiðjan fái ekki að selja afurðir sínar, sem eru kjötmjöl og fita, sem loðdýra- eða svínafóður. Þá segir hann að ekki hafi fengist leyfi til að selja afurðir til Asíu þar sem kaupandi vilji nota kjötmjölið í gæludýrafóður. Þá svíður svínabændum að fá ekki að kaupa fitu úr verksmiðjunni til að blanda í fóður, en tekið var fyrir þá notkun fyrir nokkru síðan. Gunnar Ásgeirsson, svínabóndi á Grísagarði, segir að í staðinn verði svínabændu að kaupa sojaíblöndunarefni frá Brazilíu. "Þetta eykur hjá okkur fóðurkostnað," segir hann og telur að kostnaðarauki til neytenda geti jafnvel farið yfir tíu prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×