Viðskipti innlent

Og Vodafone kaupir allt hlutaféð

Stjórnir Og Vodafone og Norðurljósa, sem eiga meðal annars Bylgjuna og Stöð 2, hafa komist að samkomulagi um kaup Og Vodafone á öllu hlutafé tveggja dótturfélaga Norðurljósa, Íslenska útvarpsfélagins ehf. og Fréttar ehf. Þetta er breyting frá því fyrirkomulagi sem kynnt var í tilkynningu til Kauphallar Íslands þann 28. október sl. þar sem gert var ráð fyrir að Og Vodafone myndi kaupa allt hlutafé í Norðurljósum. Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki hluthafafundar og afstöðu samkeppnisyfirvalda. Heildarkaupverð er samtals 5.800 milljónir króna, miðað við markaðsgengi bréfa Og Vodafone í lok dags í gær. Það greiðist að hluta með útgáfu nýrra hluta í Og Vodafone að nafnverði 810 milljónir króna og hins vegar með peningum. Skattamál Norðurljósa og tengdra félaga hafa verið til skoðunar um nokkurt skeið. Í áreiðanleikakönnun sem framkvæmd var í tengslum við kaupin er tekið á mögulegum skattaskuldbindingum ÍÚ. Endanleg niðurstaða varðandi skattaskuldbindingarnar liggur ekki fyrir en verði staðfest af yfirskattanefnd, og eftir atvikum dómstóla, athugasemdir skattyfirvalda er það mat stjórnenda Og Vodafone að samanlögð fjárhæð þessara skuldbindinga geti ekki orðið hærri en 460 milljónir króna og er í kaupverði tekið tillit til þessa. Stjórnendur Og Vodafone telja að með þessu sé mætt ýtrustu kröfum opinberra aðila án þess að um viðurkenningu á ofangreindum kröfum sé að ræða, samkvæmt yfirlýsingu sem birt var í Kauphöllinni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×