"Mér datt í hug að bjóða Reykjavíkurlistanum að ráða mig í borgarstjórastarfið til að spara prentkostnað," segir Þórólfur Árnason. Hann býr á Álftanesi og vinnur hjá stórfyrirtækinu NTC sem í daglegu tali er kallað Sautján. Þórólfur Árnason er eini alnafni Þórólfs Árnasonar en að auki eiga þeir nafnann Árna Þórólf Árnason. Sá er fjórtán ára og býr á Seltjarnarnesi.
Þórólfur segir það sársaukalaust að vera nafni borgarstjóra á þessum síðustu og verstu tímum, eins og sagt er, nema hvað heldur meira er hringt í hann en vanalega. "Það er einn og einn sem slysast á vitlausan mann og þannig hefur það verið lengi, reyndar alveg síðan Þórólfur kom heim frá námi á sínum tíma. Og það er heldur meira núna." Þeir nafnarnir eru ekki skyldir en fundum þeirra hefur borið saman. "Ég hef aðeins hitt hann og sagt honum af mér en við þekkjumst ekki neitt." Þórólfur Árnason er norðan úr landi en hefur búið á Álftanesi í fjórtán ár og unir hag sínum vel. Hann hefur aðeins skipt sér af stjórnmálum, var í sveitastjórnarmálunum á Álftanesinu en er hættur því vafstri. "Ég er í Sjálfstæðisflokknum," segir Þórólfur og bendir á að í pólitík eigi þeir Þórólfur ekki samleið. Hann segir svolítið gantast með nafnið í sundlaugunum en hann syndir reglulega í Sundlaug Kópavogs. "Þar hef ég reyndar vanalega verið kallaður varaborgarstjórinn," segir Þórólfur og hlær. Hann þarf væntanlega að sjá á eftir þeim titli um mánaðamótin þegar borgarstjórinn hættir en gæti á móti hreppt sjálfan borgarstjórastólinn, þ.e. ef borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans eru hagsýnir og vilja spara sér bréfsefnið.
Lífið