Innlent

Sérdeild fyrir unga fanga

MYND/Vísir
Lögð hefur verið fram þingsályktun um að sett verði á fót sérdeild fyrir unga fanga á aldrinum 18-24 ára þar sem samneyti þeirra við eldri fanga verður í algjöru lágmarki, og aðeins ef brýna nauðsyn ber til. Fyrsti flutningsmaður er Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Hérlendis hafa ekki verið rekin sérstök fangelsi fyrir unga fanga en slíkar stofnanir þekkjast þó víða erlendis. Flutningsmenn telja að bygging fyrirhugaðs fangelsis á Hólmsheiði við Nesjavallaveg vera einstakt tækifæri til að gera ráð fyrir sérstakri deild fyrir unga fanga. Í umræðu um hið nýja fangelsi hefur hins vegar ekki verið gert ráð fyrir slíkri sérdeild fyrir unga fanga, að því er segir í tilkynningu flutningsmanna Flutningsmenn telja að ungir fangar hafi margs konar sérstöðu og álíta að ekki sé æskilegt að þeir afpláni dóma í samneyti við eldri afbrotamenn. Það getur verið ókleift að ná fram betrun ungra fanga með því að vista þá í samneyti við eldri fanga, sem sumir hverjir eru síbrotamenn. Margoft hefur verið sýnt fram á að samneyti ungra fanga við eldri, og jafnvel forhertari fanga, gerir þeim yngri ekkert gott og getur í sumum tilvikum haft afar hvetjandi áhrif á unga fanga til frekari þátttöku í afbrotum. Flutningsmenn telja endurhæfingu því líklegri til að skila betri árangri, séu ungu fangarnir í eins jákvæðu og uppbyggilegu umhverfi og hugsast getur miðað við aðstæður.  .



Fleiri fréttir

Sjá meira


×