Handbolti

Pytlick: „Ís­land átti meira skilið í kvöld“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Simon Pytlick sækir að íslensku vörninni í kvöld. Hann hrósaði íslenska liðinu eftir leikinn.
Simon Pytlick sækir að íslensku vörninni í kvöld. Hann hrósaði íslenska liðinu eftir leikinn. EPA/BO AMSTRUP

Danska stórskyttan Simon Pytlic skoraði fimm mörk fyrir Dani í sigrinum á Íslandi í undanúrslitum EM í kvöld og hann var öflugur á lokasprettinum í leiknum þegar danska liðið landaði sigrinum. Pytlick hrósaði íslenska liðinu eftir leik.

„Við byrjuðum leikinn svolítið illa og fengum tvær tveggja mínútna brottvísanir og það var dálítið erfitt þegar maður spilar á móti Íslandi,“ sagði Pytlic í viðtali við heimasíðu EHF eftir leikinn.

„Við verðum bara að taka ofan fyrir íslenska liðinu því þeir hafa spilað virkilega vel á þessu móti en það er erfitt að spila hér í Boxen-höllinni á móti okkur,“ sagði Pytlic

„Margir af línumönnunum okkar voru ekki með og Simon Hald var farinn út af í hálfleik meiddur þannig að við þurftum að bjóða upp á nýjar uppstillingar í varnarleiknum,“ sagði Pytlic

„Ísland er að mínu mati eitt af bestu liðunum í mótinu. Ísland átti meira skilið í kvöld en við erum virkilega ánægðir með sigurinn í dag,“ sagði Pytlic.

Nú bíður liðsins úrslitaleikur á móti Þjóðverjum.

„Við þurfum að berjast mikið í þeim leik. Margir af okkar leikmönnum eru enn frá, þannig að við þurfum að leggja mikið í þetta. Svo höfum við líka andrúmsloftið hér á bak við okkur og vonandi stöndum við uppi sem sigurvegarar á sunnudaginn,“ sagði Pytlic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×