Handbolti

„Margar á­kvarðanir hjá dómurunum sem ég á erfitt með að lifa með“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Eitt af mörgum skiptum þar sem rifið var í Gísla Þorgeir Kristjánsson.
Eitt af mörgum skiptum þar sem rifið var í Gísla Þorgeir Kristjánsson. vísir / Vilhelm

„Mér fannst við eiga mjög góða möguleika í dag að vinna þetta“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson eftir 31-28 tap Íslands gegn Danmerkur í undanúrslitum EM. Hann er ósáttur með margar ákvarðanir dómara leiksins.

„Það þarf allt að vera fullkomið á móti svona liði eins og Danmörku, en það var það ekki. Við brennum fjórum vítum, sem er ótrúlega mikið á móti svona sterku liði og þeir refsa í hvert skipti sem við skorum ekki. Það er það fyrsta sem kemur upp í hausinn en svo eru margar ákvarðanir hjá dómurunum sem ég á erfitt með að lifa með“ sagði Gísli í viðtali við Val Pál Eiríksson og útskýrði hvað hann átti við með dómgæsluna.

„Við fáum oft og tíðum bara ekki að spila handbolta. Við erum að brjótast í gegn en þeir bara stoppa. Afhverju veit ég ekki. Það tekur líka flæðið úr okkur, þegar þeir eru alltaf að stoppa leikinn og leyfa okkur ekki bara að spila handbolta. Þetta er kannski aðeins of mikið tuð um dómara en þetta eru fyrstu viðbrögð.“

Mikið hangið í þér líka og fullt af fríköstum sem hefðu getað verið vítaköst?

„Já. Algjörlega. Kannski er maður aðeins of neikvæður en það voru mörg móment þarna sem voru bara fríköst, en það var líka mín tilfinning að þær ákvarðanir hafi farið þeirra megin í dag. Það svíður auðvitað mikið því mér fannst við verðskulda meira.“

Gísli segir það alls ekki staðreynd að danska liðið sé of stór biti fyrir það íslenska kynga.

„Ég sé það ekki þannig. Við vorum sannarlega með alla möguleika til að vinna þá í dag og það sýnir líka hvað við erum komnir langt sem lið. Mér fannst þeir alls ekki sterkari aðilinn í dag, þó þeir hafi verið með yfirhöndina síðustu fimmtán mínúturnar. En mér fannst við eiga meira inni.“

„Við ætlum að vinna bronsið“ sagði Gísli að lokum.

Klippa: Gísli Þorgeir ósáttur með dómgæsluna í Danmörku



Fleiri fréttir

Sjá meira


×