Sport

Djokovic „ekki dauður enn“ og mætir Alcaraz í fyrsta úr­slita­leik ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Novak Djokovic var meyr og tilfinningasamur eftir að sætið í úrslitaleiknum var í höfn eftir meira en fjögurra klukkustunda baráttu. 
Novak Djokovic var meyr og tilfinningasamur eftir að sætið í úrslitaleiknum var í höfn eftir meira en fjögurra klukkustunda baráttu.  Getty/ James D. Morgan

Novak Djokovic mætir Carlos Alcaraz í úrslitaleik Opna ástralska meistaramótsins í tennis eftir að báðir fögnuðu sigri í fimm setta maraþonleikjum í undanúrslitum.

Hinn 38 ára gamli Djokovic fær því enn eitt tækifærið til að vinna sinn 25. risatitil, sem er eina markmiðið sem hann á eftir að ná á glæstum ferli sínum.

Serbinn kom til baka og sigraði tvöfaldan ríkjandi meistara, Jannik Sinner, 3-6, 6-3, 4-6, 6-4, 6-4 í leik sem endaði klukkan hálftvö um nóttina að staðartíma.

Spánverjinn Alcaraz hafði áður unnið sinn undanúrslitaleik 6-4, 7-6 (7-5), 6-7 (3-7), 6-7 (4-7), 7-5 eftir æsispennandi fimm klukkustunda og 27 mínútna viðureign gegn Alexander Zverev.

Tölurnar gefa varla fulla mynd af þeirri dramatík sem átti sér stað í báðum undanúrslitaleikjunum.

Úrslitaleikur karla í einliðaleik fer fram á sunnudag, en á laugardag mætast Aryna Sabalenka, sem er í efsta sæti heimslistans, og fyrrum Wimbledon-meistarinn Elena Rybakina í úrslitaleik kvenna.

Eftir það, sem var án efa ein besta frammistaða á tuttugu ára ferli hans, þakkaði Djokovic öllum sem höfðu verið fram á nótt til að styðja við bakið á honum – þar á meðal áströlsku goðsögninni Margaret Court, en hann deilir risatitlametinu, 24 titlum, með henni.

Þessi ótrúlegi sigur byggðist á nánast fullkomnum höggum á mikilvægum augnablikum en einkenndist af þeirri ótrúlegu seiglu sem hann sýndi þegar hann jafnaði leikinn tvisvar gegn Sinner, sem er í öðru sæti heimslistans.

Þrátt fyrir að hafa virst líkamlega þreyttur þegar hann tapaði þriðja settinu virtist Djokovic aðeins eflast og neitaði að gefast upp undir stöðugri pressu þegar enn einn spennandi endirinn blasti við á Rod Laver-vellinum.

Djokovic, sem hefur unnið tíu risamótstitla í Melbourne, sýndi ótrúlega endurkomu úr stöðunni 0-40 og var þá aðeins einum leik frá sigri eftir að hafa náð fyrsta brotinu og komist í 4-3. Hann braut að lokum niður mótspyrnu Sinners og varð þar með elsti maður á Opna tímabilinu til að komast í úrslitaleik Opna ástralska meistaramótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×