Handbolti

Stutt síðan Gísli var ekki sér­lega vel liðinn af ís­lensku þjóðinni

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur verið besti sóknarmaður alls Evrópumótsins, segir Einar Jónsson þjálfari Fram.
Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur verið besti sóknarmaður alls Evrópumótsins, segir Einar Jónsson þjálfari Fram. vísir/Vilhelm

Gísli Þorgeir Kristjánsson var lofaður í hástert í nýjasta þætti hlaðvarpsins Besta sætið, enda búinn að fara á kostum á EM í handbolta í ár. Sérfræðingarnir rifjuðu hins vegar upp að á fyrri stórmótum hefði Gísli verið gerður að blóraböggli þegar sóknarleikurinn gekk illa.

Umræðuna má heyra í spilaranum hér að neðan en talið barst að Gísla eftir 33 mínútur. Þáttinn má einnig nálgast á hlaðvarpsveitum.

Ljóst er að mikið mun mæða á Gísla í kvöld þegar Ísland mætir Danmörku, í fyrsta undanúrslitaleik sínum á stórmóti síðan árið 2010.

Ekki hissa á að Óli Stef segi þetta

Gísli, sem Handball Planet valdi í gær sem leikstjórnanda ársins 2025, hefur verið það góður að þegar Ólafur Stefánsson átti að spyrja hann spurningar í beinni útsendingu RÚV á miðvikudaginn, eftir sigurinn gegn Slóvenum, sleppti Ólafur því. Hann vildi frekar nýta tímann til að segja Gísla að hann væri búin að eiga eina mögnuðustu frammistöðu á stórmóti sem sést hefði hjá íslenskum landsliðsmanni.

„Ég er ekki hissa á að Ólafur Stefánsson segi þetta því það er eiginlega fáránlegt hvað allt er búið að ganga vel upp hjá Gísla. Hann er búinn að vera með sóknarleikinn algjörlega á herðunum og það er oft þægilegt að spila á móti liði sem setur svona mikla ábyrgð á einn sóknarmann. Þá er auðvelt að bregðast við því. En hann er bara það góður að það er ekki hægt að stoppa hann,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson í Besta sætinu.

Gísli Þorgeir veldur varnarmönnum eflaust martröðum með sífelldum árásum sínum.VÍSIR/VILHELM

Þeir Jóhann Gunnar og Einar Jónsson verða í beinni útsendingu á Vísi í dag klukkan 14, í EM-Pallborðinu vinsæla.

Var kennt um leiðinlegan leikstíl Íslands

„Gísli er orðinn það góður leikmaður að það er ómögulegt að stoppa hann. Samt skýtur hann ekki fyrir utan. Það er fáránlegt að segja þetta,“ sagði Jóhann og hélt áfram:

„Það má ekki gleyma að fyrir tveimur árum, þá var Gísli ekkert sérstaklega vel liðinn af íslensku þjóðinni. Honum var dálítið kennt um „ljótan og leiðinlegan“ leikstíl Íslands. Við værum allt of mikið að hnoðast, það væri svo auðvelt að spila á móti okkur því við skytum aldrei fyrir utan, og Gísli var gerður að blóraböggli. Snorri þyrfti að breyta þessu og það væri ekki hægt að spila svona í alþjóðabolta – láta brjóta svona oft á sér og stoppa sóknir.

En hann er búinn að þróast ótrúlega hratt og vel. Hann tekur svo mikið af réttum ákvörðunum og hann er orðinn lang, lang, langmikilvægasti sóknarmaður liðsins. Hann fær líka aldrei hvíld, er samt stanslaust í árásum en þreytist aldrei. Það er fáránlegt.“

Besti sóknarmaður mótsins

Einar tók í sama streng og er orðinn hrifnari af íslenska sóknarleiknum en áður.

„Gísli er búinn að vera besti sóknarmaðurinn á þessu móti, af öllum liðum. Hann er búinn að vera stórkostlegur. Fyrir einu eða tveimur árum síðan var hann ákveðið vandamál. Sóknarleikurinn hefur verið okkar akkilesarhæll og ég hef sagt það áður að ég hef ekki gaman af þessum sóknarleik.

En þetta hefur hins vegar þróast í mjög góða og skemmtilega átt. Ómar er meira baka til en áður voru þeir báðir endalaust að djöflast. Núna fer þetta mikið meira í gegnum Gísla og það er bara meðvituð ákvörðun hjá þjálfaranum, myndi ég halda. Það er áherslumunur á sóknarleiknum frá því sem áður var,“ sagði Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×