Handbolti

„Gjör­sam­lega glóru­laust“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Snorri Steinn furðar sig á ýmsu en einblínir á leikinn.
Snorri Steinn furðar sig á ýmsu en einblínir á leikinn. Vísir/Vilhelm

Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari í handbolta, furðar sig á ýmsu í kringum komandi úrslitahelgi í Herning. Hann segir þó engar afsakanir vera fyrir strákana okkar og nennir sem minnst að spá í utanaðkomandi aðstæðum.

Ísland mætir Danmörku í undanúrslitum á EM annað kvöld klukkan 19:30. Fyrr um daginn eigast við Króatía og Þýskaland, þjálfuð af Degi Sigurðssyni og Alfreð Gíslasyni.

Klippa: Snorri ræðir hitamálin, undanúrslitin og Dani

Tvennt hefur sérstaklega brunnið á fólki í aðdraganda komandi undanúrslita. Leikjaniðurröðun og miðamál.

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Króata, fór mikinn á blaðamannafundi í Herning í dag í aðdraganda leiks Króatíu við Þýskaland í undanúrslitum þar sem hann hreinlega hraunaði yfir Handknattleikssamband Evrópu, EHF.

Ísland er í sömu stöðu og Króatía hvað hvíldina og ferðalag varðar. Á meðan Danir hafa verið á sama stað allt mótið og spilað annan hvern dag spilaði Ísland tvo síðustu leikina í milliriðli á sólarhring og þurfti að ferðast rúma þrjá klukkutíma í rútu í dag frá Malmö til Herning.

Hvað þykir Snorra um málið?

„Auðvitað er þetta bara skrýtið. Þetta er ekki eðlilegt fyrirkomulag en hvort að það hafi einhverja þýðingu eða að ég hafi einhverja sterka skoðun á því. Þarna eru bara einhverjir jakkafataklæddir EHF-gæjar á ráðstefnu að raða þessu saman.“

„Þetta er skrýtið en við breytum þessu ekkert. Þetta lá fyrir og við erum ekki að fara að hengja okkur á þetta núna. Við græðum ekkert á því,“ segir Snorri Steinn.

Trúir því ekki en nennir ekki að pæla í því

Miðamál hafa einnig verið til umræðu. Íslendingar verða um 150 í höllinni á morgun gegn tæplega 14 þúsund Dönum sem keyptu upp alla miða fyrir löngu síðan.

Snorri segir það heldur enga afsökun, þó furðulegt sé fyrirkomulagið.

„Við skulum alveg hafa það á hreinu að þetta mun ekki hafa áhrif á leik liðsins á morgun og þetta er ekki ástæða fyrir því að eitthvað gerist eða gerist ekki í leiknum,“

„En það segir sig sjálft að í 15 þúsund manna höll að það séu 100 miðar fyrir þjóð sem kemst í undanúrslit er gjörsamlega glórulaust. Það er ekki hægt að tala neitt öðruvísi um það. Þetta er svo ótrúlegt að ég trúi þessu ekki og nenni ekki að pæla í þessu,“ segir Snorri Steinn.

Töluvert fleira kemur fram í viðtali við Snorra sem sjá má í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×