Handbolti

Læri­sveinn Al­freðs gafst upp og skipti um her­bergi

Sindri Sverrisson skrifar
Lukas Mertens þarf sinn svefn eins og aðrir.
Lukas Mertens þarf sinn svefn eins og aðrir. Getty/Sina Schuldt

Álagið á leikmönnum á Evrópumótinu í handbolta er nær ómannlegt og þá getur skipt sköpum að fá nægilega góðan nætursvefn. Þetta veit Þjóðverjinn Lukas Mertens sem fékk nóg af hrotunum í herbergisfélaga sínum.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í þýska liðinu eru, líkt og Íslendingar, komnir í undanúrslit og mæta þar Króötum á morgun klukkan 16:45.

Það verður fimmti leikur Þjóðverja á níu dögum og alls áttundi leikur þeirra á mótinu, á tveimur vikum.

Mertens þarf líkt og aðrir eins mikla hvíld og hægt er á milli leikja og hann sá fljótt að hann gæti ekki hvílst nægilega vel í sama herbergi og liðsfélagi hans, Franz Semper, sem hrýtur einfaldlega of hátt.

„Ég veit ekki með ykkur en þegar einhver hrýtur nálægt mér þá get ég ekki sofið. Ég bara sofna ekki. Svo ég færði mig yfir í einstaklingsherbergi,“ sagði Mertens við Bild.

Hann hefði frekar kosið að geta deilt herbergi með félaga sínum, til að hafa einhvern að spjalla við og fara yfir málin á mótinu.

„En á svona móti þá þarf maður svefn. Það er alveg nauðsynlegt. Ég hef ekkert á móti Franz en þetta var mikilvægt,“ sagði Mertens.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×