Handbolti

Guðni með upp­ör­vandi upp­rifjun fyrir slaginn við Dani

Sindri Sverrisson skrifar
Strákarnir okkar unnu frábæran sigur á Slóvenum í gær og þeirra bíður því undanúrslitaleikur við Danmörku annað kvöld.
Strákarnir okkar unnu frábæran sigur á Slóvenum í gær og þeirra bíður því undanúrslitaleikur við Danmörku annað kvöld. vísir/Vilhelm

Íslendingar eiga fyrir höndum undanúrslitaleik við Dani á EM í handbolta annað kvöld, í Herning. Alls eru 47 ár síðan að Ísland vann Danmörku fyrst á útivelli, eins og fyrrverandi forsetinn og sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson rifjaði upp á Facebook.

Guðni man sérstaklega eftir þessum fyrsta útisigri Íslands gegn Danmörku því pabbi hans var þá aðstoðarmaður Jóhanns Inga Gunnarssonar landsliðsþjálfara.

„Fyrsti sigur okkar Íslendinga á móti Dönum í handbolta karla á heimavelli þeirra kom í janúar 1979. Við mættum þeim þá í Randers, „handboldens lykkeby“ eins og heimamenn kölluðu borgina. Sigurinn var sætur, 18-15. Mér er þetta mjög minnisstætt því að pabbi, Jóhannes Sæmundsson, var þá aðstoðarmaður Jóhanns Inga Gunnarssonar landsliðsþjálfara. Eftir því var einnig tekið að í 3500 manna höll voru 35 Íslendingar og yfirgnæfðu þeir einatt dönsku áhorfendurna. Það er allt hægt, áfram Ísland!“ skrifaði Guðni á Facebook.

Það er ljóst að Íslendingar verða aftur í afar miklum minnihluta í Herning á morgun. Það er fyrir löngu uppselt á undanúrslitin og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir HSÍ til að afla miða stefnir núna í að aðeins um hundrað Íslendingar verði á leiknum. Höllin sem spilað er í, Boxen, tekur um 14.500 manns í sæti.

Ljóst er að við ramman reip verður að draga hjá íslenska liðinu enda Danir taldir sigurstranglegastir fyrir mótið. Þeir hafa unnið HM síðustu fjögur skipti í röð og eru einnig ríkjandi Ólympíumeistarar, auk þess að spila á heimavelli, en hafa þó reyndar ekki unnið EM síðan árið 2012.

Ísland hefur spilað marga eftirminnilega leiki við Danmörku og Guðni rifjar einnig upp að tæp 58 ár séu síðan að Íslendingar unnu Dani í fyrsta sinn:

„Fyrsti sigurinn gegn Dönum kom í Laugardalshöll í apríl 1968. Frábær úrslit, 15-10, og ungu mennirnir voru einna öflugastir samkvæmt blaðafregnum: „Jón H. Magnússon vakti sérstaklega athygli fyrir langskot sín ‒ og fimm mörk. Hann var í essinu sínu þennan dag. En fimm mörkum hefði hann ekki náð án frábærrar aðstoðar og uppbyggingar Geirs Hallsteinssonar, sem skipti eftir skipti opnaði honum skotfæri og sendi honum knöttinn á sama sekúndubroti. En þó þessir tveir skoruðu níu af 15 mörkum ísl. liðsins, áttu aðrir sinn þátt – og ekki slakan.““




Fleiri fréttir

Sjá meira


×