Handbolti

Skuldar þjálfara Dana öl

Sindri Sverrisson skrifar
Nikolaj Jacobsen þiggur eflaust ölið eins og Dana er siður.
Nikolaj Jacobsen þiggur eflaust ölið eins og Dana er siður. Getty/Sina Schuldt

Þó að Danir væru þegar búnir að tryggja sig inn í undanúrslit á EM í handbolta, fyrir leiki gærdagsins, þá höfðu úrslitin í leik þeirra gegn Noregi afar mikla þýðingu fyrir önnur lið.

Danmörk og Noregur mættust þegar öll önnur úrslit voru ráðin og Danir vissu að sigur myndi færa þeim leik við Ísland í undanúrslitum en að tap þýddi að þeir myndu mæta Króatíu.

Hins vegar hafði leikurinn líka mikil áhrif á Portúgal sem að lokum endaði í 3. sæti milliriðils I, á eftir Danmörku og Þýskalandi, og tryggði sér þar með farseðil á HM á næsta ári. Þangað fara liðin sex sem enda efst á EM.

Portúgalar unnu átta marka sigur gegn Spáni í gær en þurftu svo að bíða og vona að Alfreð Gíslason myndi stýra Þjóðverjum til sigurs gegn Frökkum, og að Danmörk myndi vinna Noreg.

Þetta gekk eftir en portúgalski landsliðsþjálfarinn Paulo Pereira vissi að það myndi eflaust ekki saka að lofa kollega sínum hjá Danmörku, Nikolaj Jacobsen, góðum bjór ef liðið ynni Noreg og myndi þannig senda Portúgal á HM 2027. Því lofaði hann í viðtali við TV 2 í Danmörku eftir sigurinn gegn Spáni í gær:

„Við skulum sjá hvað gerist í hinum leikjunum. Ég vona að Danmörk tapi ekki eins og á síðasta EM, gegn Slóveníu. Þá gátum við líka komist í leikinn um 5. sætið ef allt hefði gengið upp. En ef Danmörk vinnur [í gær] þá kaupi ég bjór handa Nikolaj Jacobsen,“ sagði Pereira hress.

Paulo Pereira og hans menn hafa sýnt að Danir eru ekki ósigrandi. EPA/Bo Amstrup

Portúgal er eina liðið sem unnið hefur Danmörku á EM til þessa en Íslendingar freista þess að gera slíkt hið sama í undanúrslitaleiknum annað kvöld, klukkan 19:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×