Erlent

Ellefu með­limir glæpafjölskyldu teknir af lífi í Kína

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fólkið var dæmt til dauða í fyrra.
Fólkið var dæmt til dauða í fyrra.

Ellefu meðlimir Ming-glæpafjölskyldunnar hafa verið teknir af lífi í Kína en þeir voru meðal annars fundnir sekir um manndráp, mannrán, svik og veðmálastarfsemi.

Fjölskyldan er einn af þeim glæpahópum sem ráku bæinn Laukkaing í Mjanmar, sem var tekinn yfir af glæpaöflum og breytt í miðstöð vændis og veðmálastarfsemi. Þá var rekin þar umfangsmikil svikastarfsemi, þar sem fjöldi fólks var seldur mansali til að starfa við netglæpi.

Einstaklingarnir ellefu voru handteknir árið 2023 og afhentir yfirvöldum í Kína, eftir átök milli uppreisnarhópa og hersins í Mjanmar.

Stjórnvöld í Kína eru sögð hafa viljað senda skilaboð með aftökunum en umrædd starfsemi er sögð hafa færst til. Hún fari nú fram við landamæri Mjanmar að Taílandi, Kambódíu og Laos, þar sem kínversk yfirvöld hafa minni áhrif.

Talið er að þúsundir einstaklinga hafi verið seldir mansali af glæpasamtökum, sem reka áðurnefnda netglæpastarfsemi. Þar af er fjöldi Kínverja en Kínverjar eru einnig meðal helstu fórnarlamba starfseminnar. 

Kínversk yfirvöld gripu þess vegna til þess ráðs að styðja bardagahópa í Mjanmar, sem tókst að lokum að yfirtaka Laukkaing. Fimm meðlimir Bai-glæpafjölskyldunnar hafa einnig verið dæmdir til dauða í kjölfarið og þá standa réttarhöld yfir gegn tveimur glæpafjölskyldum til viðbótar.

Hér má finna umfjöllun BBC um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×