Handbolti

„Þeir virðast bara vilja brjóta múra fyrir hann“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson sést hér hvetja íslensku strákana á hliðarlínunni.
Snorri Steinn Guðjónsson sést hér hvetja íslensku strákana á hliðarlínunni. Vísir/Vilhelm

Snorri Steinn Guðjónsson er búinn að skila íslenska landsliðinu alla leið í undanúrslit á sínu þriðja stórmóti með liðið. Sérfræðingar Besta sætisins voru skiljanlega mjög sáttir með landsliðsþjálfarann.

Jóhann Gunnar Einarsson, Einar Jónsson og Stefán Árni Pálsson gerðu upp stórsigur Íslands á Slóvenum sem gerði það að verkum að Ísland er komið í undanúrslit á EM í fyrsta sinn í sextán ár. Magnaður árangur og þjálfarinn á mikið hrós skilið.

Stefán Árni segir að Besta sætið hafi ekki sett mikið út á störf Snorra í mótinu.

„Þið fóruð nú silkihönskum um hann eftir síðasta leik,“ sagði Einar Jónsson í léttum tón en hélt svo áfram:

„Hann á bara stærsta þáttinn í því“

„Snorri er búinn að vera frábær á þessu móti og hann var það á síðasta móti líka. Þú ert bara dæmdur á niðurstöðunni þegar þú ert að þjálfa íslenska landsliðið í handbolta. Þá ertu bara dæmdur á niðurstöðunni og niðurstaðan núna er stórkostleg. Hann á bara stærsta þáttinn í því, það er bara þannig,“ sagði Einar.

„Af því að þú talar um þjálfaraugu. Þegar gengur vel, þá er það leikmennirnir sem eru svo frábærir en þegar gengur illa, þá er það alltaf þjálfarinn. Hann má bara fá allt það hrós sem hann á skilið og hann á skilið bara hellings hrós,“ sagði Einar.

„Sýnir bara ótrúlega mikil gæði“

„Hann er búinn að taka nokkrar ákvarðanir inni í þessu móti, fyrir mótið og inni í leikjunum sem hefðu getað fallið bæði neikvætt og jákvætt. Hann á nokkrar stórar ákvarðanir sem hafa bara gengið upp. Það er bara það fallega við þetta. Hann sýnir bara ótrúlega mikil gæði sem þjálfari með þessu,“ sagði Einar.

Jóhann Gunnar Einarsson hrósaði Snorra fyrir að nota hópinn betur en áður. „Þó að hann gefi nú ekki mikið af sér í viðtölum, hann er oft svona frekar þurr á manninn, þá fer hann aldrei í vörn með neitt. Hann var spurður hvort Viggó hefði átt að vera búinn að spila meira á þessu móti? Og hann segir bara: „Já, mjög líklega,“ sagði Jóhann en þessi spurning kom eftir að Viggó sló í gegn á móti Svíum.

Fer ekki í vörn

„Hann er ekki að fara í einhverja vörn,“ sagði Jóhann.

„Þegar Gummi [Guðmundur Guðmundsson] var spurður: „Af hverju varstu ekki með neitt varaplan í vörninni?“ Þá kom bara tíu mínútna einræða um hvernig það væri allt. Það er það sem maður tekur eftir,“ sagði Jóhann.

„Svo virðist hann alveg vera með þessa stráka bara í vasanum. Þeir virðast bara vilja brjóta múra fyrir hann og tala ótrúlega vel um hann. Menn gera það alltaf en maður svona skynjar það líka að þetta sé alveg, það er eitthvað á bak við það,“ sagði Jóhann.

Hér fyrir neðan má hlusta á allan þáttinn þar sem Besta sætið fór yfir leikinn á móti Slóveníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×