Danir verða mót­herjar Ís­lands í undan­úr­slitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mathias Gidsel og félagar í danska landsliðinu geta valið sér mótherja í undanúrslitunum.
Mathias Gidsel og félagar í danska landsliðinu geta valið sér mótherja í undanúrslitunum. EPA/Sebastian Elias

Danir tryggðu sér sigur í sínum milliriðli og um leið leik á móti Íslandi með fjórtán marka risasigri á Norðmönnum á Evrópumótinu í handbolta í kvöld.

Danir unnu leikinn 38-24 en eftir smá vandræði í byrjun leiks var aldrei mikill vafi á því hvort liðið myndi fagna sigri.

Danir voru öruggir í undanúrslitin og gátu í raun valið sér mótherja. Sigur þýddi leik á móti Íslandi en tap eða jafntefli þýddi undanúrslitaleik á móti Króötum.

Mathias Gidsel, markahæsti leikmaður mótsins, skoraði sjö mörk áður en hann var hvíldur síðustu fimmtán mínútur leiksins. Emil Jakobsen var líka með sjö mörk og Simon Pytlick skoraði sex mörk.

Danir voru reyndar yfir í 5-4, 6-5 og 7-6 á upphafsmínútunum en svo kom góður sprettur hjá Norðmönnum og fjögur norsk mörk í röð.

Norðmenn voru þar með komnir þremur mörkum yfir, 10-7, þegar tæpar þrettán mínútur voru liðnar af leiknum og þvinguðu Nikolaj Jacobsen þjálfara til að taka leikhlé.

Honum tókst að vekja sína menn sem voru komnir þremur mörkum yfir í hálfleik, 19-16.

Danska liðið byggði síðan ofan á þetta í seinni hálfleik með því að skora þrjú fyrstu mörk hálfleiksins og vann að lokum afar sannfærandi stórsigur.

Svíar unnu þrettán marka stórsigur á Svisslendingum, 34-21, á sama tíma eftir að hafa verið 14-12 yfir í hálfleik. Sigurinn dugar þó ekki Svíum sem spila við Portúgal um fimmta sætið.

Undanúrslitaleikirnir verða því Þýskaland-Króatía annars vegar og Ísland-Danmörk hins vegar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira