Skoðun

Flótti ríkis­stjórnarinnar frá Flóttamannavegi

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir skrifar

Flóttamannavegur, sem svo er kallaður, liggur eins og perlufesti yfir Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð og tengir sveitarfélögin saman. Við hann liggja nýbyggð sístækkandi hverfi sem gera hann að ákjósanlegri tengingu þessara bæjarfélaga. Einnig er hann eina leiðin að fjölsóttum útivistarperlum í Heiðmörk og á tvo golfvelli, Odd og Setbergsvöll.

Vegurinn var lagður fyrir tæplega áttatíu árum af herliði Breta og Bandaríkjanna og notaður til hergagnaflutninga frá Mosfellsbæ til Keflavíkur. Hann er enn notaður í dag og sinnir hlutverki sem hann var aldrei hannaður eða ætlaður fyrir. Um 4.000 bílar aka hann daglega og spá Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir að þeir verði 12.000 innan fárra ára. Þetta er því ekki lengur varaleið, heldur gamall vegur sem vegna íbúaþróunar þjónar íbúum nú eins og stofnæð. Vegurinn er orðinn slitinn og i raun hættulegur svo þungri umferð og því nauðsynlegt að ráðast í vegabætur og endurbyggingu sem fyrst.

Í haust lögðum við í Umhverfis- og framkvæmdaráði Hafnarfjarðar fram skýrslu Vegagerðarinnar með fullri útfærslu, kostnaðaráætlun og hönnunartillögum fyrir öruggan tengiveg með göngu- og hjólastígum. Allt er tilbúið frá okkar hálfu og það eina sem vantar er raunverulegur vilji ríkisins til að koma að framkvæmdinni. Vegagerðin leggur einnig til að undirbúningur framkvæmda hefjist sem fyrst. Ríkisstjórnin er þessu ekki sammála því í samgönguáætlun hennar sem nú er í umræðu á Alþingi er einungis lagt til að um 50 milljónum verði veitt í framlag við hönnun vegarins á næstu tveimur árum. Ekki er gert ráð fyrir neinni upphæð í framkvæmdir. Þetta er einfaldlega ekki ásættanlegt og ekki hægt að líta á þetta fátæklega framlag öðruvísi en sem flótta frá Flóttamannaveginum. Rósa Guðbjartsdóttir, þingmaður, gagnrýndi þessa ákvörðun í umræðum um samgönguáætlun í síðustu viku. Í framhaldi af því var málið tekið á dagskrá bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í dag 28. janúar þar bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Viðreisnar lögðu fram formlega bókun þar skorað er á innviðaráðherra og Alþingi að hækka fjárveitinguna strax og að framkvæmdir hefjist sem fyrst.

Vegurinn er þarna enn og þarfnast tafarlausrar hönnunar og úrbóta í takt við aukna notkun. Nú er mál að linni þessum flótta frá Flóttamannaveginum og að gripið verði til að gera sem fyrst.

Höfundur er bæjarfulltrúi og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar.




Skoðun

Skoðun

Fimm rang­færslur um Byrjendalæsi

Gunnar Gíslason,Guðmundur Engilbertsson,Jenný Gunnbjörnsdóttir ,Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir,Rannveig Oddsdóttir,Rúnar Sigþórsson skrifar

Sjá meira


×