Handbolti

Dan­mörk, Frakk­land eða Þýska­land bíða í undan­úr­slitum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Strákarnir okkar bíða eftir úrslitum úr öðrum leikjum til að vita hverjum þeir mæta í undanúrslitum.
Strákarnir okkar bíða eftir úrslitum úr öðrum leikjum til að vita hverjum þeir mæta í undanúrslitum. vísir / vilhelm

Strákarnir okkar eru komnir í undanúrslit en hverjum munu þeir mæta þar? Það liggur ekki ljóst fyrir fyrr en í kvöld en ýmsir möguleikar eru í stöðunni.

Undanúrslitaleikirnir fara fram á föstudag klukkan 16:45 og 19:30. Strákarnir okkar munu spila við Danmörku, Frakklandi eða Þýskaland í undanúrslitum, en það fer eftir úrslitum dagsins hverjum nákvæmlega. 

Tveir leikir eru að hefjast núna klukkan fimm. Króatía mætir Ungverjalandi, sem er úr leik, og í hinum milliriðlinum mætast Frakkland og Þýskaland í úrslitaleik.

Tveir leikir fara svo fram í kvöld. Svíþjóð mætir Sviss, sem er úr leik, og í hinum milliriðlinum mætast Danmörk, sem er búið að tryggja sig áfram, og Noregur, sem er úr leik.

Spilað verður á víxl, annað sætið mætir fyrsta sætinu úr hinum riðlinum og öfugt.

Hvað þurfa Króatar að gera?

Ef Króatía vinnur gegn Ungverjalandi endar Króatía í efsta sæti í milliriðlinum. Ef Króatía tapar þeim leik þá endar Ísland í efsta sæti milliriðilsins, og Svíþjóð getur með sigri slegið Króatíu úr leik. 

Þýskalandi dugir jafntefli í úrslitaleik gegn Frakklandi

Ef Þýskaland vinnur eða gerir jafntefli gegn Frakklandi kemst Þýskaland áfram. Ef Þýskaland tapar þeim leik fer Frakkland áfram í undanúrslit.

Þá væri líka komin upp sú staða, ef Þýskaland vinnur, að Danmörk gæti „ráðið“ hvaða liði þeir mæta í undanúrslitum, að því marki sem þeir ráða úrslitunum í leik sínum við Noreg.

Danmörk gæti tapað þeim leik, ef Þýskaland vinnur, og viljandi lent í öðru sæti. Ef Frakkland vinnur endar Danmörk í efsta sæti sama hvað.

Á Svíþjóð einhvern möguleika?

Svíþjóð bíður og vonar að Króatía tapi eða geri jafntefli á móti Ungverjalandi. Þá geta Svíarnir tekið annað sæti milliriðilsins með sigri gegn Sviss í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×