Handbolti

„Þetta er al­gjör við­bjóður akkúrat núna“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson og félagar í íslenska landsliðinu voru afar svekktir eftir jafnteflið á móti Svisslendingum í dag.
Elliði Snær Viðarsson og félagar í íslenska landsliðinu voru afar svekktir eftir jafnteflið á móti Svisslendingum í dag. Vísir/Vilhelm

Elliði Snær Viðarsson og félagar í íslenska landsliðinu voru skiljanlega mjög svekktir eftir jafnteflið á móti Sviss í dag. Tapað stig þýðir að nú þarf íslenska landsliðið að treysta á aðra ætli liðið að komast í undanúrslitin.

„Þetta er bara drullu, drullu svekkjandi,“ sagði Elliði Snær Viðarsson og var mjög daufur þegar hann mætti í viðtalið.

„Tilfinningin eftir svona leik er bara fullt af svekkelsi. Svo verður maður bara að bíða og vona og sjá hvernig þetta verður einhvern veginn þegar líður á daginn. Þetta er algjör viðbjóður akkúrat núna,“ sagði Elliði við Val Pál Eiríksson eftir leik.

Svisslendingarnir skoruðu 38 mörk í þessum leik. Hvað var svona erfitt í vörninni með að stöðva?

„Við náum ekki þessari liðsheild í vörnina sem við náðum í síðasta leik. Við erum rosa slitnir og þeir einhvern veginn ná að tæta okkur í sundur allan leikinn. Við náum einhvern veginn aldrei að stoppa þá,“ sagði Elliði.

Nær hann að setja fingur á það hvað skýrir þennan mun á milli leikjanna?

„Nei, það er bara, það eru bara einhver smáatriði, hugarfar og eitthvað. Ég bara get ekki svarað því núna,“ sagði Elliði.

Nú þarf íslenska liðið að vona það besta varðandi önnur úrslit og svo er bara leikur strax á morgun.

„Já, það er bara sama hvað gerist, það er leikur á morgun. Við ætlum okkur að vinna hann. Þetta er bara drulluvekkjandi í kvöld alla vega og svo og líklega eitthvað langt fram eftir en nú er það bara morgundagurinn,“ sagði Elliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×