Erlent

Um þriðjungur Dana fær 50 þúsund króna „matartékka“ beint í vasann frá ríkinu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Markmiðið með aðgerðinni er að mæta hækkandi matvöruverði sem hafi reynst erfitt fyrir budduna á mörgum heimilum landsins.
Markmiðið með aðgerðinni er að mæta hækkandi matvöruverði sem hafi reynst erfitt fyrir budduna á mörgum heimilum landsins. EPA/Bo Amstrup

Dönsk stjórnvöld hafa komist að samkomulagi um beinan peningastyrk til barnafjölskyldna, lífeyrisþega, bótaþega og námsmanna sem ætlað er að mæta hækkandi matvöruverði í landinu. Um er að ræða skattfrjálsa einskiptisgreiðslu, svokallaðan „matartékka“, sem nemur tæpum 50 þúsund íslenskum krónum til einstaklinga sem uppfylla skilyrði til greiðslunnar, en tæpar 20 þúsund krónur til námsmanna. Þá standa yfir viðræður milli stjórnmálaflokka um lækkun virðisaukaskatts á matvöru.

Það eru ríkisstjórnarflokkarnir þrír ásamt tveimur vinstriflokkum í stjórnarandstöðu sem standa að matartékkanum sem fulltrúar flokkanna kynntu á blaðamannafundi nú í morgun.

Barnafjölskyldur geta átt rétt á hundrað þúsund kalli

Greiðslan mun nema 2.500 dönskum krónum, eða sem jafngildir tæpum 49.000 íslenskum krónum miðað við gengið í dag. Samkvæmt umfjöllun TV 2 er gert ráð fyrir að yfir tvær milljónir Dana geti átt rétt til greiðslunnar, eða um þriðjungur þjóðarinnar þar sem íbúar landsins eru um sex milljónir. 

Þar á meðal eru foreldrar sem þéna innan við sem nemur 814 þúsund íslenskum krónum á mánuði, óháð tekjum maka. Alls geta barnafjölskyldur fengið tæpar 100 þúsund krónur í beina greiðslu frá ríkinu ef heildartekjur hvors foreldris á ári nema innan við 9,7 milljónum, séu viðmiðunartekjur gróflega umreiknaðar í íslenskar krónur. Þá er gert ráð fyrir að um sex þúsund barnafjölskyldur í sérstökum aðstæðum fái enn hærri styrk, upp á annaðhvort tæpar 150 eða 200 þúsund krónur íslenskar.

Ákveðinn hópur námsmanna fær líka greiðslu, en þó ekki eins mikið og aðrir hópar sem eiga rétt á tékkanum.EPA/Bo Amstrup

Fimm flokkar sammála um aðgerðina

Ellilífeyrisþegar og aðrir bótaþegar hjá ríkinu eiga einnig rétt á greiðslu upp á 2.500 danskar krónur, en námsmenn sem ekki búa í foreldrahúsum og fá SU-námsstyrk frá ríkinu fá 1.000 danskar, eða um 19.500 íslenskar. Gert er ráð fyrir að matartékkinn verði greiddur út í maí og í júní og að heildarkostnaður vegna hans muni nema um 4,5 dönskum milljörðum, sem nemur um 88 milljörðum íslenskra króna.

Markmiðið með aðgerðinni er að mæta hækkun matvöruverðs í Danmörku, sem hafi komið illa við fólk og fjölskyldur sem hafi minna á milli handanna. Auk ríkisstjórnarflokkanna, Sósíaldemókrata, Moderaterne og Venstre, eiga vinstri flokkarnir Enhedslisten og SF einnig aðild að samkomulaginu. Þá standa yfir viðræður á milli stjórnmálaflokka á danska þinginu um mögulega lækkun virðisaukaskatts á matvörur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×