Sport

Sjáðu stökkið: Þriðju verð­laun Hall­dórs á X-Games

Sindri Sverrisson skrifar
Halldór Helgason hefur um langt árabil verið í fremstu röð snjóbrettakappa í heiminum.
Halldór Helgason hefur um langt árabil verið í fremstu röð snjóbrettakappa í heiminum. Samsett/@xgames

Snjóbrettakappinn Halldór Helgason frá Sílastöðum í Eyjafirði sýndi stórkostleg tilþrif á X-Games í gær og vann til verðlauna á leikunum í þriðja sinn á ferlinum.

Halldór vann til silfurverðlauna í Knuckle Huck, rétt eins og hann gerði fyrir þremur árum, en verðlaunastökkið hans má sjá hér að neðan.

Halldór framkvæmdi stökkið, þar sem hann fer í raun í tvöfalt heljarstökk fram fyrir sig í loftinu, við ansi krefjandi aðstæður í snjókomunni í Aspen eins og sjá má.

„Takk, takk, takk. Þetta átti að vera tvöfalt handdrag með tvöföldu framheljarstökki [e. frontflip] en ég sá ekki hnúann [e. knuckle],“ skrifaði Halldór á Instagram við færslu X-Games um silfurstökk hans.

Eins og fyrr segir eru þetta þriðju verðlaun Halldórs á X-Games, jafnvel þó að þessi 35 ára gamli snjóbrettamaður hafi kannski aldrei lagt sérstaka áherslu á keppni á sínum ferli. Hann vann gullverðlaun árið 2010 í Big Air, og svo silfrið í Knuckle Huck fyrir þremur árum eins og fyrr segir.

Finninn Rene Rinnekangas vann gullverðlaunin í Knuckle Huck í gær en Marcus Kleveland, sem endaði fyrir ofan Halldór árið 2023, hlaut bronsverðlaunin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×