Handbolti

Greip frá þeim skot­fastasta og pakkaði vonar­stjörnu Svía saman

Sindri Sverrisson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson stóð heldur betur fyrir sínu í gær og fagnar hér markvörslu gegn Svíum.
Viktor Gísli Hallgrímsson stóð heldur betur fyrir sínu í gær og fagnar hér markvörslu gegn Svíum. VÍSIR/VILHELM

Viktor Gísli Hallgrímsson átti eina bestu markvörslu EM í sigrinum gegn Svíum í gær og greip líka skot frá „skotfastasta manni mótsins“. Gríðarlega mikilvægur, eins og sérfræðingarnir í Besta sætinu ræddu um í nýjasta þættinum.

Hægt er að hlusta á Besta sætið í spilaranum hér að neðan eða á öllum helstu hlaðvarpsveitum. Umræðan um Viktor hefst eftir rúmar 33 mínútur af þættinum.

„Viktor var ekkert eitthvað geggjaður frá upphafi til enda í þessum leik en hann steig upp á hrikalega mikilvægum augnablikum. Hans „blind spot“ finnst mér vera þessi skot fyrir utan og mér leið ógeðslega vel fyrir hans hönd að sjá hann grípa frá skotfastasta manni mótsins,“ sagði Rúnar Kárason og átti þá við skot frá Kiel-skyttunni Eric Johansson seint í leiknum.

Viktor náði einnig með ótrúlegum hætti að klóra í boltann eftir að Johansson sneri honum framhjá honum, eins og sjá má á myndbandi EHF.

 „Ég held að hann hafi þurft svolítið á þessu að halda. Að standa betur á móti skyttunum. Hann gerði það betur en við höfum séð til hans áður,“ sagði Rúnar.

Ásgeir Örn Hallgrímsson tók í sama streng:

„Mér fannst hann mjög góður. Þetta er rétt rúmlega 30% markvarsla og hún er jöfn og þétt í gegnum allan leikinn. Þegar við vorum að ná undirtökunum í leiknum, í byrjun fyrri hálfleiksins, varði hann tvö víti og það var risaþáttur í að við næðum góðu tempói. Það var gríðarlega mikilvægt,“ sagði Ásgeir en Viktor varði vítin tvö frá Nikola Roganovic, vonarstjörnu Svía:

„Roganovic er sonur algjörrar goðsagnar í sænska boltanum og búinn að vera ótrúlega öruggur á vítalínunni en Viktor bara pakkaði honum saman. Það hefur gefið Viktori helling,“ sagði Rúnar.


Tengdar fréttir

Dregur til baka um­mæli sín um Gísla Þor­geir

Sér­fræðingar Besta sætisins héldu vart vatni yfir frammistöðu Gísla Þor­geirs Kristjáns­sonar í átta marka sigri Ís­lands á Svíþjóð á EM í hand­bolta í gær. Menn tóku hatt sinn ofan, átu sokk, en um­fram allt dáðust að Gísla Þor­geiri og því hvernig hann hefur tekið af skarið sem leið­togi innan vallar.

„Svo kemur Ómar Ingi og fer að spila eins og Viggó“

Viggó Kristjánsson var öðrum fremur maður leiksins í stórsigrinum á Svíum á EM í handbolta í gærkvöldi og með magnaðri innkomu hans kviknaði heldur betur á hægri vængnum hjá íslenska landsliðinu. Örvhentu leikmennirnir í Besta sætinu voru líka ánægðir með þessa innkomu Viggós og líka hvaða áhrif það hafði á Ómar Inga Magnússon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×