Innlent

Munaði litlu að ný­liði skákaði borgar­stjóra

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir hafnaði í þriðja sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í kvöld.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir hafnaði í þriðja sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í kvöld. Vísir/Vilhelm

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, sem hafnaði í þriðja sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í kvöld, var einungis fimmtán atkvæðum frá því að lenda sæti ofar en Heiða Björg Hilmisdóttir sitjandi borgarstjóri. 

Steinunn er formaður kvennahreyfingar Samfylkingarinnar og starfar sem ráðgjafi hjá Aton JL. Áður starfaði hún sem talskona Stígamóta. Hún hefur ekki verið á lista Samfylkingarinnar í kosningum áður.

Mbl.is greinir frá því að Steinunn, sem sóttist eftir öðru sæti listans og hlaut í heildina 1.961 atkvæði, hafi hlotið 1.653 atkvæði í fyrsta til annað sæti listans. Líkt og fram hefur komið hlaut Heiða Björg 1.668 atkvæði. Þannig hafi Steinunn verið einungis fimmtán atkvæðum frá því að skáka sitjandi borgarstjóra.

Frambjóðendur röðuðust í sex efstu sætin með eftirfarandi hætti:

  1. sæti Pétur H. Marteinsson með 3.063 atkvæði í 1. sæti.
  2. sæti Heiða Björg Hilmisdóttir með 1.668 atkvæði í 1.- 2. sæti.
  3. sæti Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir með 1.961 atkvæði í 1. - 3. sæti.
  4. sæti Skúli Helgason með 1.933 atkvæði í 1. - 4. sæti.
  5. sæti Stein Olav Romslo með 2.139 atkvæði í 1. - 5. sæti.
  6. sæti Bjarnveig Birta Bjarnadóttir með 2.256 atkvæði í 1.- 6. sæti.

Á kjörskrá voru 6.955 og atkvæði greiddu 4.849. Kjörsókn var 69,7%.

Bjartsýn á framhaldið

„Það er ótrúlega gaman að vera hluti af svona sterkum lista af frábærum kandídötum sem ætla að vera með í borginni og ég er ótrúlega bjartsýn á framhaldið,“ sagði Steinunn við fréttamann eftir að úrslitin voru kunngjörð.

Hún segir fyrsta verkefnið að funda og stilla saman strengi að því er varðar áherslur og breytingar hjá flokknum í borginni.

„Ég hef mjög mikinn áhuga á þessum stóru jafnaðarmálum, til að mynda leikskólamálunum sem ég tel að við verðum að leysa í eitt skipti fyrir öll. Og að tryggja öruggt húsnæði fyrir alla.“

Vonbrigði Heiðu Bjargar leyndu sér ekki þegar fréttamaður náði tali af henni fyrr í kvöld. Hún sagði gríðarleg vonbrigði að hafa ekki gengið betur og að hún hefði haldið að flokkurinn væri kominn á þann stað að treysta reyndri konu til að leiða listann í Reykjavík.

„Ég hélt að við værum þar en það er greinilega ekki,“ sagði hún.

Vísir var í beinni frá Iðnó í kvöld og útsendinguna í heild sinni má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Samfylkingin valdi sér borgarstjóraefni

Pétur Marteinsson skákaði sitjandi borgarstjóra og verður oddviti Samfylkingarinnar í Retkjavík í sveitarstjórnarkosningunum 2026. Niðurstöður flokksvals Samfylkingarinnar í Reykjavík voru kynntar í kvöld.

Gríðarleg vonbrigði að reyndri konu sé ekki treyst

„Þetta eru bara gríðarleg vonbrigði, vissulega. En líka þakklæti fyrir mikinn stuðning. Í rauninni er ég stolt af mínum baráttumálum og minni vinnu. Þetta er tvíbent, en auðvitað eru vonbrigði að vera ekki treyst fyrir fyrsta sætinu. Ég hélt að Samfylkingin væri komin á þann stað.“

Stóra verkefnið að vinna aftur traust borgarbúa

Pétur Marteinsson nýkjörinn oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík segir stærsta verkefni flokksins í komandi kosningum að vinna traust borgarbúa til baka. Hann segir gott gengi í prófkjörinu til marks um að fólk vilji breytingar í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×