Skoðun

Formannsslagur FF – breytingar, sam­fella og spurningin um for­gangs­röðun

Bogi Ragnarsson skrifar

Formanns- og stjórnarkjör í Félagi framhaldsskólakennara fer fram dagana 26.–29. janúar. Í aðdraganda kosninganna hefur umræða um stöðu framhaldsskólakennara, kjaramál og innra starf félagsins fengið aukið kastljós. Í kosningabaráttunni mætast tvær mismunandi áherslur, annars vegar hjá Simon Cramer Larsen, formanni skólamálanefndar FF, og hins vegar hjá sitjandi formanni, Guðjóni Hrein Haukssyni (Kennarasamband Íslands, 2026a; Vísir, 2026a, 2026b).

Tvær leiðir að sama markmiði

Áherslumunurinn felst í forgangsröðun í starfi Félags framhaldsskólakennara á næsta kjörtímabili. Simon rammar framboð sitt inn sem svar við „ákalli um breytingar“ og tengir það fyrst og fremst við innra starf félagsins, svo sem gegnsæi, betra upplýsingaflæði og aukna aðkomu félagsfólks að ákvörðunum og ferlum. Guðjón leggur hins vegar áherslu á samfellu og áframhaldandi vegferð, þar sem samstaða, árangur í samningaviðræðum og sterk skipulagsuppbygging félagsins séu lykilforsendur í kjarabaráttu og hagsmunagæslu (Vísir, 2026a, 2026b; Kennarasamband Íslands, 2026b).

Tengsl við grasrót og upplýsingaflæði

Munurinn birtist skýrt í því hvernig frambjóðendurnir skilgreina tengsl félagsins við grasrótina. Simon lýsir því að félagsfólk upplifi skort á upplýsingum og áhrifum og vill styrkja samtal, nærveru og formfestu, meðal annars með skýrari reglum um kjör varaformanns og hámarksetu formanns. Guðjón svarar þessu með því að benda á víðtækt innra net félagsdeilda, trúnaðarmanna og nefnda og heldur því fram að fullyrðingar um fjarlægð stjórnar frá félagsfólki eigi sér ekki stoð í raunverulegri starfsemi félagsins. Í kjölfar framboðsfundarins hefur hann jafnframt lagt áherslu á að upplýsingamiðlun og aðgengi félagsfólks að félaginu fari fram með skipulegum hætti, meðal annars í gegnum félagsdeildir, trúnaðarmenn og formlegt fyrirspurnakerfi, sem að hans mati stuðlar að rekjanleika mála, minni hættu á misskilningi og betri þjónustu (Guðjón Hreinn Hauksson, óbirt skrifleg samskipti við félagsdeildir, 23. janúar 2026; Vísir, 2026a, 2026b).

Þegar breytingaorðræða mætir ferli

Í því samhengi er vert að hafa í huga að Simon hefur sjálfur um árabil gegnt lykilhlutverkum innan félagsins, meðal annars í stjórn, samninganefnd og sem formaður skólamálanefndar. Það útilokar ekki að hann geti leitt breytingar, en bendir til þess að breytingaáherslan snúist fremur um endurmat á vinnulagi og forgangsröðun innan núverandi ramma en róttækar breytingar á lýðræðislegu umboði félagsins. Á sama tíma opnar þessi áhersla fyrir þá túlkun að hún sé ekki eingöngu stefnumiðuð, heldur einnig liður í stefnumarkandi aðgreiningu frá núverandi formanni (Simon Cramer Larsen, e.d.; Vísir, 2026a; Kennarasamband Íslands, 2026b).

Slík spenna er ekki óalgeng í kosningum og frambjóðandi sem hefur starfað innan kerfis getur engu að síður viljað breyta því. Spurningin er frekar hverju breytingarnar eiga að snúa, hversu djúpar þær eigi að vera og hvernig eigi að ná samstöðu um þær í félagi sem stendur frammi fyrir viðkvæmum kjaraviðfangsefnum.

Sameiginlegir áhersluþættir frambjóðenda

Þrátt fyrir áherslumun eru frambjóðendurnir sammála um að laun, vinnuálag, stytting vinnuviku og þróun vinnumats og virðismats verði úrslitaþættir næstu ára. Áherslumunur felst þó í því hvar þeir leggja meginþunga. Guðjón setur stofnanasamninga og ójöfnuð í launaröðun milli skóla í forgrunn og tengir baráttuna við stærra verkefni um leiðréttingu á vanmati starfa, með áframhaldandi samvinnu innan Kennarasambands Íslands. Hann hefur jafnframt lagt áherslu á að komast út úr því fyrirkomulagi að stofnanasamningar ráði launum kennara á mismunandi hátt eftir skólum, þar sem slíkt grafi undan jafnræði innan stéttarinnar.

Launagreining og samanburður milli skóla

Til að varpa skýrara ljósi á stöðuna var framkvæmd samanburðargreining á mánaðarlaunum kennara með sömu forsendur í öllum framhaldsskólum, byggð á launareiknivél Kennarasambands Íslands. Forsendur voru þær sömu í öllum tilvikum: 20 ára kennslureynsla, tvöfalt leyfisbréf, meistarapróf (MA), fullt starf, engin stjórnunar- eða umsjónarhlutverk og afsal kennsluskyldu samkvæmt gildandi reglum (Kennarasamband Íslands, e.d.).

Niðurstöðurnar sýna að mánaðarlaun kennara með þessar forsendur eru verulega mismunandi eftir framhaldsskólum. Lægstu mánaðarlaun mældust 877.239 kr., á meðan hæstu laun námu 956.329 kr. Meðaltal mánaðarlauna í framhaldsskólum reyndist 903.626 kr.

Grunnskólinn sem viðmið

Til samanburðar voru mánaðarlaun kennara með sömu forsendur í grunnskóla reiknuð 900.128 kr. Þótt meðaltal framhaldsskólanna liggi örlítið yfir þeirri tölu, sýna gögnin að 11 af 29 framhaldsskólum eru undir grunnskólaviðmiði. Þetta undirstrikar að þótt kerfið skili hærra meðaltali í heild, er dreifing launa innan framhaldsskóla veruleg.

Stofnanasamningar og kerfislægur launamunur

Þessar niðurstöður benda til þess að vandinn felist ekki eingöngu í tilvist stofnanasamninga sem slíkra og fremur í því hvernig þeir eru útfærðir og endurskoðaðir á vettvangi einstakra skóla. Ef áfram er stuðst við stofnanasamninga sem verkfæri í kjaramálum, hvílir ábyrgðin á forystu kennara innan skólanna að tryggja að þeir leiðrétti slíkan kerfisbundinn launamun þegar samningarnir eru endurskoðaðir.

Gögnin styðja þá gagnrýni að stofnanasamningar hafi í framkvæmd skapað kerfisbundinn launamun innan stéttarinnar. Þar sem fjárheimildir skólanna eru fastar og launahækkanir fylgja ekki auknu fjármagni frá ríkinu, koma slíkar hækkanir beint niður á rekstri skólanna og endurspegla því síður raunverulega samkeppni um starfsfólk. Fyrir kennara í þeim skólum sem standa veikast í launaröðun birtist þetta sem kerfislægt fyrirkomulag mótað af ólíku rekstrarumhverfi fremur en af menntun, starfsreynslu eða ábyrgð.

Virðismat, árangur og næstu skref í kjarabaráttu

Simon leggur áherslu á þátttöku félagsfólks í virðismati og setur fram skilyrt viðmið: virðismatsleiðin sé tæki sem verði að skila mælanlegum ávinningi, annars þurfi að vera hægt að segja nei (Vísir, 2026a, 2026b; Kennarasamband Íslands, 2026b).

Gögn um launaþróun sýna að samningaleg vegferð síðustu ára hefur skilað raunverulegum árangri, einkum í samanburði við BHM-félög hjá ríkinu. Á sama tíma undirstrikar þróunin að þetta sé einn áfangi í lengra ferli, þar sem stærri áskoranir eru enn fram undan (Guðjón Hreinn Hauksson, óbirt skrifleg samskipti við félagsdeildir, 23. janúar 2026).

Svæðisskrifstofur og óvissan um framtíð skólanna

Um ytri breytingar í framhaldsskólum, svo sem hugmyndir um svæðisskrifstofur, lýsa báðir áhyggjum af óljósu samráði og óvissu um sjálfstæði skóla og ráðningarsamband. Simon leggur áherslu á að samráð verði raunverulegt samtal við grasrót, á meðan Guðjón rammar málið frekar inn sem hluta af langvarandi fjársvelti og varar við að nýtt stjórnsýslustig geti verið dýr hagræðing á kostnað kjarnastarfs skóla (Kennarasamband Íslands, 2026b).

Breytingar eða samfella?

Í reynd virðist kosningin því snúast um forgangsröðun og leiðir. Ef félagsfólk telur brýnast að breyta verklagi og styrkja innri þátttöku, fellur framboð Símons eðlilega að þeirri áherslu. Ef félagsfólk telur hins vegar að samningaleg festa, samstaða og áframhaldandi samfella vegi þyngst á viðkvæmu kjaratímabili, fellur framboð Guðjóns að þeirri nálgun. Val félagsfólks snýst því síður um eitt „rétt svar“ heldur fremur um það hvaða leið telst líklegust til að skila árangri miðað við stöðu mála og þau verkefni sem blasa við (Vísir, 2026a, 2026b; Kennarasamband Íslands, 2026b).

Höfundur er framhaldsskólakennari

Heimildir

Guðjón Hreinn Hauksson. (2026, 23. janúar). Tölvupóstur til formanna félagsdeilda FF um svör við spurningum á framboðsfundi [óbirt skrifleg samskipti].

Kennarasamband Íslands. (e.d.). Launareiknivélar. Sótt 24. janúar 2026 af https://www.ki.is/kjaramal-og-styrkir/kjor/launareiknivelar/

Kennarasamband Íslands. (2026a, 23. janúar). Formanns- og stjórnarkjör FF hefst á mánudag.

Kennarasamband Íslands. (2026b, 22. janúar). Framboðsfundur FF [viðburður].

Simon Cramer Larsen. (e.d.). Um mig. Sótt af https://www.simoncramer.com/um-simon/

Vísir. (2026a, 13. janúar). Svarar ákalli um breytingar [útvarpsviðtal við Simon Cramer Larsen].

Vísir. (2026b, 22. janúar). Það er formannsslagur víða [útvarpsviðtal við Guðjón Hrein Hauksson].




Skoðun

Sjá meira


×