Handbolti

Haukur heill heilsu: „Þetta var svaka­legt högg“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Snorri Steinn segir Hauk hafa það fínt þrátt fyrir að hafa vankast í leiknum í gær.
Snorri Steinn segir Hauk hafa það fínt þrátt fyrir að hafa vankast í leiknum í gær. Vísir/Vilhelm

Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari í handbolta, segir alla leikmenn vera heila eftir strembinn leik við Króata í gær. Nokkrir urðu fyrir hnjaski í leiknum.

Ómar Ingi Magnússon fór út af um tíma vegna eymsla en sneri snarlega aftur og er í góðu standi. Sömu sögu er að segja af Orra Frey Þorkelssyni sem lá í jörðinni um hríð en hefur það gott.

Mestar áhyggjur voru af Hauki Þrastarsyni sem fékk þungt höfuðhögg. Snorri Steinn var tekinn tali fyrir æfingu landsliðsins í keppnishöllinni í Malmö í dag þar sem hann segir betur hafa farið en áhorfðist með Hauk.

„Staðan er bara þokkaleg á hópnum, á miðað við það að við erum að fara í fimmta leik. Ég hafði smá áhyggjur af Hauki en hann fór í skoðun í morgun og þetta lítur vel út. En þetta var svakalegt högg,“ segir Snorri í samtali við Vísi.

Ísland mætir Svíþjóð klukkan 17:00 á morgun. Leiknum verður lýst í beinni textalýsingu á Vísi og liðinu fylgt eftir hvert fótmál fram að leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×