Handbolti

Besta sætið um Ómar: Væri búið að heyrast eitt­hvað ef þetta væri Aron eða Óli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon, lengst til hægri, hugar hér að meiddum liðsfélaga sínum í gær ásamt þeim Janusi Daða Smárasyni og Ými Erni Gíslasyni.
Ómar Ingi Magnússon, lengst til hægri, hugar hér að meiddum liðsfélaga sínum í gær ásamt þeim Janusi Daða Smárasyni og Ými Erni Gíslasyni. Vísir/Vilhelm

Landsliðsfyrirliðinn Ómar Ingi Magnússon var vissulega markahæsti leikmaður íslenska liðsins í tapleiknum á móti Króatíu en hann skoraði bara þrjú mörk utan af velli, klikkaði á tveimur vítaskotum og fékk síðan sinn skammt af gagnrýni frá sérfræðingi Besta sætisins.

Eftir þrjá sigurleiki í röð byrjaði þetta ekki vel hjá strákunum okkar á móti Degi Sigurðssyni og lærisveinum hans í króatíska landsliðinu í fyrsta leik milliriðilsins. Ágúst Orri Arnarson fékk sérfræðingana Ásgeir Örn Hallgrímsson og Jóhann Gunnar Einarsson í hljóðverið til sín til að fara ítarlega yfir leikinn.

Jóhann Gunnar vildi benda á Ómar Inga aðspurður um það sem hefði mátt betur fara í leiknum.

„Í fyrstu þremur leikjunum hafa menn stigið upp. Það var þarna Haukur í Póllandsleiknum og svo var það Janus í Ítalíuleiknum sem kom með eitthvað extra inn í liðið. Svo var það Viktor í Ungverjaleiknum,“ sagði Jóhann Gunnar.

Vantaði einhverja frábæra frammistöðu

„Það vantaði einhverja frábæra frammistöðu, kannski fyrir utan Óðin [Þór Ríkharðsson] sem var náttúrulega frábær. Síðustu þrjú mörkin hans komu samt þegar við erum bara að laga markatöluna en ég tek ekkert af honum. Hann var frábær en þetta hefði mátt kannski dreifast betur í miðjum leik, svona þegar allt er undir,“ sagði Jóhann.

„Þetta er búið að vera mjög gott mót hingað til en þetta var bara ekki góður leikur í dag,“ sagði Jóhann og hann horfir til Ómars Inga Magnússonar.

Sjö mörk í fjórum leikjum úr opnum leik

„Ómar Ingi er búinn að skora sjö mörk í opnum leik í fjórum leikjum. Ég held þið hafið verið fjögur mörk fyrir þennan leik og hann skoraði þrjú mörk í opnum leik í þessum,“ sagði Jóhann og eitt af þessum þremur mörkum kom í frákasti eftir að Ómar lét verja frá sér víti.

Jóhann vill meina að fyrrum fyrirliðar og lykilleikmenn hefðu ekki komist upp með svona frammistöðu án þess að fá að heyra það frá gagnrýnendum.

„Hefði þetta verið Aron Pálmarsson, þegar hann var fyrirliði og upp á sitt besta, eða þá Óli Stefáns, þá væru menn heldur betur aðeins að éta þá í sig ef þeir hefðu bara skorað sjö mörk í fyrstu fjórum leikjunum í opnum leik,“ sagði Jóhann.

Við þurfum bara meira frá honum

„Við þurfum bara meira frá honum og það er eitthvað sem er ekki að virka. Ég veit ekki hvort það sé leikskipulagið eða bara hvort hann sé eitthvað þreyttur eftir langa törn í Þýskalandi. Hann er einhvern veginn bara fastur í bakverðinum og kemur lítið inn á miðjuna. Við erum með lítið af klippingum fyrir hann,“ sagði Jóhann.

„Hann kemur síðan með sturlaðar fintur sem eru frábærar, skorar eða fiskar víti,“ sagði Jóhann.

„Einu sinni skaut hann stundum fyrir utan,“ skaut Ásgeir Örn inn í.

Hvar eru undirhandarskotin?

„Hann var í undirhandarskotum, bara flottum skotum,“ sagði Jóhann.

„Hann gerði þetta bara ítrekað,“ sagði Ásgeir.

„Við náum honum ekkert inn í hættulegar stöður fyrir utan eða hann er ekki að koma sér í þær. Ég veit ekki hvað það er, en það er svona eina sem maður getur kannski sett út á sem er augljóst,“ sagði Jóhann.

Gísli [Þorgeir Kristjánsson] er bara búinn að vera frábær þótt hann skori ekki mark í leiknum í dag. Hann fiskaði sex víti og átta stoðsendingar og var bara stanslaust að,“ sagði Jóhann.

„Bara eins góður og hægt er,“ skaut Ásgeir Örn inn í.

Maður er smá svekktur

Jóhann vildi sjá meira af Viggó sem kom með stöðuskot og fiksaði ruðning en var svo settur strax á bekkinn fyrir Ómar Inga.

„Maður er smá svekktur út af því að maður bindur svo miklar vonir við Ómar. Hann er að spila frábærlega með sínu félagsliði en nær ekki að færa það yfir í landsliðið í síðustu leikjum. Það er svona það augljósasta ef þú spyrð mig um hvað vanti upp á,“ sagði Jóhann.

Það má hlusta á allan þáttinn hér fyrir neðan en það er farið yfir leikinn í gær frá öllum hliðum auk þess að velta framhaldinu fyrir sér.


Tengdar fréttir

Skýrsla Vals: Ekki aftur

Fyrir ári síðan sá ég eina tap Íslands á síðasta stórmóti. Það kom gegn Króötum í Zagreb og dugði til að kasta strákunum úr leik. Nú er að vona að tap fyrir þeim bölvuðum geri það ekki að verkum í ár.

Ein­kunnir Strákanna okkar á móti Króatíu: Basl á Bóndadaginn

Íslenska karlalandsliðið í handbolta tapaði sínum fyrsta leik á Evrópumótinu þegar það laut í lægra haldi fyrir Króatíu, 29-30, í milliriðli II í Malmö. Slök vörn í fyrri hálfleik og slæm vítanýting varð Íslandi að falli í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×