Fótbolti

Breska lög­reglan gagn­rýnir brandara for­seta FIFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino var að reyna að gera lítið úr áhyggjunum af HM í Bandaríkjunum í sumar en ákvað að gera það með því að skjóta á breska stuðningsmenn.
Gianni Infantino var að reyna að gera lítið úr áhyggjunum af HM í Bandaríkjunum í sumar en ákvað að gera það með því að skjóta á breska stuðningsmenn. Getty/Ulrik Pedersen

Svokallaður brandari Gianni Infantino, forseta FIFA, um hegðun breskra stuðningsmanna á heimsmeistaramótinu í Katar 2022 var „hvorki hjálplegur né réttur,“ segir yfirmaður fótboltalöggæslu í Bretlandi sem gegnrýnir skot forsetans.

Infantino skaut á breska stuðningsmenn í ræðu á Alþjóðaefnahagsráðstefnunni í Davos í Sviss og sagði að úrslitakeppnin í Katar 2022 hefði verið sérstök vegna þess að „enginn Breti var handtekinn.“

Mark Roberts lögreglustjóri, yfirmaður fótboltalöggæslu hjá Landssambandi lögreglustjóra, sagði við Press Association: „Þótt slíkt kunni að vera sagt í gríni er hvorki hjálplegt né rétt að koma með slíkar athugasemdir,“ sagði Roberts.

Normið að Bretar hagi sér vel

„Til að það sé á hreinu, þá er það normið að „breskir“ stuðningsmenn hagi sér vel á heimsmeistaramótum, ekki eitthvað sérstakt,“ sagði Roberts.

„Í Katar voru engir enskir eða velskir stuðningsmenn handteknir, í Rússlandi voru þrír enskir stuðningsmenn handteknir fyrir mjög smávægileg brot. Í Brasilíu voru fimmtán handteknir – þar af sjö fyrir miðasölu – og í Suður-Afríku voru sjö handteknir fyrir smávægileg mál,“ sagði Roberts.

„Ódýrt grín“

Infantino hjá FIFA var strax sakaður á samfélagsmiðlum um að gera „ódýrt grín“ að breskum stuðningsmönnum

„Miðað við þann mikla fjölda stuðningsmanna sem ferðast og borga mikið til að komast á heimsmeistaramót eru mörg, mörg önnur lönd sem valda gestgjöfum meiri vandræðum,“ sagði Roberts.

Infantino ræddi um heimsmeistaramótið í Katar þegar hann reyndi að sefa áhyggjur vegna úrslitakeppninnar í Norður-Ameríku í sumar, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem mikil spenna er innanlands.

„Þetta er eitthvað mjög, mjög sérstakt“

Hann sagði að úrslitakeppnin í Katar hefði fengið „mikla gagnrýni“ en bætti við: „Þegar boltinn fór að rúlla og töfrarnir hófust urðu nánast engin atvik,“ sagði Infantino.

„Í fyrsta sinn í sögunni var heldur enginn Breti handtekinn á heimsmeistaramóti. Ímyndið ykkur! Þetta er eitthvað mjög, mjög sérstakt,“ sagði Infantino.

Samtök fótboltaáhugamanna sögðu á fimmtudag að Infantino ætti að einbeita sér að því að bjóða upp á ódýra miða frekar en að gera ódýrt grín á kostnað stuðningsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×