Handbolti

Skýrsla Vals: Ekki aftur

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fólk var eðlilega vonsvikið eftir leik sem hefði hæglega getað farið á annan veg.
Fólk var eðlilega vonsvikið eftir leik sem hefði hæglega getað farið á annan veg. Vísir/Vilhelm

Fyrir ári síðan sá ég eina tap Íslands á síðasta stórmóti. Það kom gegn Króötum í Zagreb og dugði til að kasta strákunum úr leik. Nú er að vona að tap fyrir þeim bölvuðum geri það ekki að verkum í ár.

Tilfinningin var verri eftir leikinn í fyrra. Meira vonleysi og þyngra högg í magann. Það var meira í þessari frammistöðu að miklu leyti. En djöfull er leiðinlegt að sjá brosandi Króata að gefa fimmur hérna í blaðamannaaðstöðunni.

Því var velt upp fyrir leik hvort það myndi koma sér vel fyrir Ísland að hafa fengið sólarhring meira í hvíld fyrir leik. Menn myndu mæta ferskir til leiks og vonandi, loksins, byrja betur en andstæðingurinn og ná frumkvæðinu snemma.

Að keyra yfir króatískt lið sem var að miklu leyti tjaslað saman. Samkvæmt þjálfaranum Degi Sigurðssyni eru margir þar að glíma við meiðsli.

Það voru hins vegar Króatarnir sem stýrðu ferðinni.

Þeir skoruðu í fyrstu sókn og það var merki þess sem koma skildi. Í hvert skipti sem þeir stilltu upp í sókn skoruðu þeir. Fyrstu tíu mínúturnar hafði Ísland náð einni löglegri stöðvun og einni markvörslu.

Mann fannst vanta baráttu í vörnina. Menn voru svo langt frá Króötunum að það gafst ekki tækifæri á því að sýna umbeðna baráttu. Þeir klipptu eins og þeir vildu og hlupu hringi í kringum ringlaða íslenska varnarmenn. Svo fóru öll skot inn.

Sóknarleikurinn hafði hins vegar aldrei verið betri. Menn prjónuðu sig í gegnum Króata eins og þeir vildu en handboltaleikir vinnast aldrei ef maður fær á sig mark í hverri sókn.

Fjöldi vítavarslna Króata var á pari við fjölda allra markvarslna íslenska markvarðadúettsins.

Að enda hálfleikinn á fimm mínútum án marks er glæpsamlegt þegar vörn og markvarsla er eins slök og raun ber vitni.

Króatía með 19 mörk í fyrri hálfleik og 18 af þeim úr uppstilltum sóknarleik. Eitt úr víti og ekkert úr hraðaupphlaupum. Hægur sóknarleikur þeirra skilaði 18 mörkum úr uppstilltum sóknum. Á 30 mínútum.

Það er galið.

Í byrjun seinni hálfleiks kom vottur af íslensku geðveikinni í vörnina, stemningin jókst alls staðar, innan vallar og í stúkunni, en áfram skoruðu Króatar þetta eina mark þegar við þurftum stopp.

Þetta var alltaf næstum því.

Strákarnir grófu sér holu sem var of djúp til að komast upp úr. Þeir höfðu það ekki í sér að brúa bilið til fulls. Því miður. En asskoti sem þeir voru oft nálægt því.

Þrenna Óðins í lokin var geggjuð og eitthvað sem maður hefði viljað sjá fyrr, að menn finndu stopp, keyrðu upp hraðann og refsuðu með hraðaupphlaupum eða seinni bylgju.

Næsti úrslitaleikur er á sunnudaginn. Svíar unnu Króata með átta mörkum svo eins marks tap skiptir máli upp á innbyrðis stöðu ef við skyldum vinna heimamenn á sunnudaginn kemur.

Strákarnir eru enn með þetta í eigin höndum. En þeir köstuðu góðu færi á glæ í dag.

Ég bið þess eins að tap gegn þessum bölvuðu Króötum verði ekki aftur til þess að við föllum úr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×