Erlent

Ólympíufarinn eftirlýsti gómaður eftir ára­tug á flótta

Samúel Karl Ólason skrifar
Ryan James Wedding sást síast á Starbucks í Mexíkóborg árið 2024, þá var vinstri myndin tekin af honum. Hann hefur verið á flótta frá 2015.
Ryan James Wedding sást síast á Starbucks í Mexíkóborg árið 2024, þá var vinstri myndin tekin af honum. Hann hefur verið á flótta frá 2015. Getty/Andrew Harnik

Kanadamaðurinn Ryan Wedding, sem keppt hefur á Vetrarólympíuleikunum fyrir hönd Kanada, hefur verið handtekinn en hann var einn af þeim tíu mönnum sem starfsmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) vilja mest koma höndum yfir. Wedding hefur verið ákærður fyrir morð, smygl og peningaþvætti og hefur verið á flótta frá 2015.

Handtaka hans hefur ekki verið staðfest af yfirvöldum í Bandaríkjunum en fjölmiðlar vestanhafs segja að hann hafi verið handtekinn í Mexíkó og til standi að halda blaðamannafund um málið seinna í dag.

Wedding keppti á Ólympíuleikunum árið 2002 en hann er nú 44 ára gamall og hefur verið á flótta frá yfirvöldum í Bandaríkjunum og Kanada í meira en áratug. Hann var fyrst ákærður í Kanada árið 2015 og sakaður um ýmis fíkniefnabrot og að hafa skipulagt og gefið skipanir um morð. Samkvæmt kanadíska ríkisútvarpinu sást hann síðast á Starbucks í Mexíkó í janúar 2024.

Hann var einnig ákærður í Bandaríkjunum 2024 og er sakaður um að hafa stýrt glæpasamtökum sem smygluðu kókaíni frá Suður-Ameríku til Bandaríkjanna og Kanada. Forsvarsmenn FBI höfðu heitið fimmtán milljónum dala fyrir upplýsingar sem leiddu til handtöku hans.

Sjá einnig: Ólympíufari á lista yfir tíu eftirlýstustu glæpamenn FBI

Pam Bondi, dómsmálaráðherra, hefur sagt að samtök þessi hafi flutt sextíu tonn af kókaíni á ári til Los Angeles í gegnum Mexíkó og samtökin hafi hagnast um meira en milljarð dala á ári hverju á smyglinu.

Lengi hefur verið talið að Wedding hafi verið í felum í Mexíkó, þar sem hann mun hafa notið verndar Sinaloa-samtakanna víðfrægu, samkvæmt CNN.

Hér að neðan má sjá sex mínútna langa frétt Ríkisútvarps Kanada um líf Weddings og hvernig hann varð alræmdur glæpamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×