Innlent

Á­rásar­maðurinn svartklæddi reyndist vera ættingi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Landsréttur staðfesti ákvörðun héraðsdóms um að maðurinn skyldi sæta gæsluvarðhaldi.
Landsréttur staðfesti ákvörðun héraðsdóms um að maðurinn skyldi sæta gæsluvarðhaldi. Vísir/Hanna

Komst að því morguninn eftir að svartklæddi árásarmaðurinn tengdist honum fjölskylduböndum

Sá aldrei andlit árásarmannsins en komst að því morguninn eftir að þeir tengdust fjölskylduböndum

Maður sem er grunaður um að ráðast inn á heimili og stinga sofandi húsráðanda virðist hafa passað sérstaklega vel upp á að vera algjörlega svartklæddur þegar meint árás var framin. Hann klæddist svörtum sokkum yfir skó sína, var með svarta lambhúshettu, og með stunguvopn vafið inn í svartan sokk.

Árásarmaðurinn og sá sem varð fyrir árásinni deila dóttur, en sá síðarnefndi komst ekki að því hver hefði verið að verki fyrr en morguninn eftir umrædda atburði.

Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði sem birtur hefur verið á vef Landsréttar. Umræddir atburðir áttu sér stað um miðjan október síðastliðinn. Lögregla rannsakar málið sem tilraun til manndráps eða stórfellda líkamsárás.

Komu auga á svartklæddan mann á leiðinni

Lögreglu barst tilkynning um málið nóttina sem atburðirnir áttu sér stað. Henni var greint frá því að árásarmaðurinn hefði brotist inn á heimili manns og ráðist á hann með hnífi á meðan hann svaf í rúmi sínu.

Húsráðandanum hafi þó tekist að reka árásarmanninn út, en tók fram að töluvert blóð væri á vettvangi. Hann tók fram að árásarmaðurinn hefði verið allur svartklæddur með eitthvað svart hulið yfir andlitið á sér.

Þegar lögregluþjónar voru á leið á vettvang komu þeir auga á mann sem passaði við umrædda lýsingu. Við leit á honum fannst hnífur og leikfangabyssa. Þá var hann, líkt og áður segir, í svörtum sokkum yfir skóna, með svarta lambhúshettu, og með stunguvopn vafið inn í svartan sokk en á enda vopnsins var blóðugur pappír. Á fingrum honum mátti jafnframt sjá þornað blóð.

Þar að auki fundust meint fíkniefni í fórum mannsins, falin í tveimur tyggjópökkum.

Maðurinn neitaði alfarið að svara spurningum lögreglu vegna málsins hádegið eftir.

Ekki upp á kant við neinn

Húsráðandinn var fluttur á bráðamóttökuna í Fossvogi, en hann var með sjáanlega stunguáverka á öxl, og andliti. Þá var hann ansi blóðugur, meðal annars um magann.

Rannsóknarlögreglumaður ræddi við manninn á bráðamóttökunni. Hann sagði að þegar atburðirnir áttu sér stað hafi hann verið nýkomin úr vinnu og farið að sofa nakinn.

Um nóttina hafi hann rumskað við eitthvað bank í húsinu, en ekkert orðið frekar var við það og sofnað aftur. Stuttu síðar hafi hann svo vaknað við það að sæng hans hafi verið tekin af honum og ráðist á sig.

Hann hafi orðið var við ítrekuð högg í öxl og höfuð. Hann sá þó aldrei andlit árásarmannsins, og taldi að hann hefði hulið andlit sitt að einhverju leiti.

Maðurinn sagði við lögreglu að hann væri ekki upp á kant við neinn og skildi ekki afhverju verið væri að ráðast á hann.

Hann sagðist hafa gleymt að læsa útidyrahurð sinni. Blóð hafi verið að sjá þar sem skellt er í lás en hann sagðist hafa læst hurðinni eftir að honum hafi tekist að koma árásarmanninum út úr íbúðinni.

Árásarmaðurinn barnsfaðir dóttur hans

Lögreglan tók aðra skýrslu af honum um hádegisleytið morguninn eftir. Þá bar lögreglan undir hann nafn grunaðs árásarmanns, og greindi maðurinn þá frá því að hann væri barnsfaðir dóttur hans.

Hann sagðist ekki hafa áttað sig á því um nóttina.

Árásarmaðurinn var úrskurðaður í nokkurra daga gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur, og staðfesti Landsréttur þá ákvörðun.

Lögreglan taldi mikilvægt að svo yrði svo árásarmaðurinn gæti ekki torveldað rannsókn málsins, „svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka og eftir atvikum vitni.“

Fram kom að á þeim tímapunkti ætti eftir að taka skýrslur af dótturinni sem mennirnir deila og barnsmóðurinni.

Í úrskurðinum er tekið fram að brotið sem árásarmaðurinn sé grunaður um geti varðað allt að sextán ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×