Fótbolti

Bretar ó­sáttir með „ó­dýran brandara“ Infantino

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Brandari forsetans féll ekki vel í kramið hjá breskum stuðningsmönnum. 
Brandari forsetans féll ekki vel í kramið hjá breskum stuðningsmönnum.  Hector Vivas - FIFA/FIFA via Getty Images

Stuðningsmannasamtökin í Bretlandi segja Gianni Infantino, forseta FIFA, eiga að einbeita sér að því að gera miða á HM ódýrari, frekar en að segja ódýra brandara.

Bresku stuðningsmennirnir eru ósáttir með ummæli sem Infantino lét falla á ráðstefnu alþjóða efnahagsráðsins í gær. Forsetinn hélt þar ræðu þar sem hann svaraði fyrir gagnrýni á HM 2026 og bar það saman við HM í Katar 2022. Þar hafi líka verið mikil gagnrýni, en síðan hafi ekkert heyrst þegar mótið sjálft byrjaði.

„Þegar boltinn byrjaði að rúlla gerðust töfrar og við áttum yndislegt heimsmeistaramót. Í fyrsta sinn í sögunni var enginn Breti handtekinn á HM. Hugsið ykkur. Þetta var einstakt mót“ sagði Infantino

Stuðningsmannasamtökin svöruðu um hæl og sögðu:

„Á meðan athygli hr. Infantino er á okkur, viljum við biðja hann um að gera miða ódýrari, frekar en að segja ódýra brandara um okkur sem stuðningsmenn. Hann ætti frekar að einbeita sér að því.“

Infantino ávarpaði þetta háa miðaverð, sem FIFA hefur verið gagnrýnt mikið fyrir í aðdraganda HM, síðar í ræðu sinni. Hann viðurkenndi að miðaverðið væri frekar hátt, en sagði í raun enga ástæðu til að breyta því, því það væri slegist um miða.

„Sem stendur eru Bandaríkin í fyrsta sæti í eftirspurninni um miða, Þýskaland í öðru sæti og England í þriðja sæti, vegna þess að það vilja allir vera þarna. Allir leikir munu seljast upp“ sagði Infantino.

Eftir að hafa hlotið mikla gagnrýni undir lok síðasta árs fyrir hátt miðaverð tilkynnti FIFA um ódýrari miða, sem yrðu aðgengilegir stuðningsmönnum þeirra þjóða sem keppa. Þeir miðar verða þó líklega í hundruðatali en ekki þúsundatali. Flestir munu þurfa að greiða uppsett verð.

Miðaverðið er ekki eina áhyggjuefnið í aðdraganda HM. Bandaríkjaforsetinn Donald Trump hefur sett miklar hömlur við komu ferðamanna frá ákveðnum löndum til Bandaríkjanna. Ferðabannið nær meðal annars yfir Haítí, Íran, Fílabeinsströndina og Senegal, sem eru öll á leiðinni á HM.

Auk þess hafa leiðtogar knattspyrnusambanda í Evrópu áhyggjur af þróun mála í Grænlandi og eru sagðir hafa haldið fundi í vikunni um mögulegar aðgerðir á HM ef Trump lætur ekki af ágirnd sinni í Grænland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×