Tónlist

Hætta ó­vænt við tónleikaferðalög sín

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hljómsveitirnar Hatari og Vintage Caravan hættu báðar óvænt við tónleikaferðalög sín.
Hljómsveitirnar Hatari og Vintage Caravan hættu báðar óvænt við tónleikaferðalög sín.

Iðnaðarteknósveitin Hatari hefur hætt við tónleikaferðalag sitt um Evrópu í febrúar án nokkurrar skýringar. Í síðustu viku hætti rokkhljómsveitin The Vintage Caravan við tónleikaferðalag sitt vegna andlegrar þreytu.

Hatari greindi frá fregnunum á samfélagsmiðlum sínum. Tónleikaferðalagið átti að hefjast 14. febrúar í Brussel í Belgíu áður en þeir færu til Amsterdam í Hollandi, Berlínar í Þýskalandi, Prag í Tékklandi og Varsjár og Poznan.

„NO MORE TOUR“ eða „Ekkert tónleikaferðalag“ er yfirskrift færslnanna sem hljómsveitin hefur deilt á Facebook og Instagram.

„Febrúar-tónleikaferðalagið hefur verið fellt niður. Ekki frestað. Ekki endurskipulagt. Sannarlega fellt niður. Miðar verða endurgreiddir,“ segir í færslunni.

Þá þakkar sveitin öllum þeim sem „ætluðu að mæta, íhuguðu að mæta eða vildu mæta“ og segist meta allar skuldbindingar jafnt. Loks segir að lögin og platan verði áfram til.

Meðal þeirra sem sitja eftir með sárt ennið eru sigurvegarar í gjafaleik íslenska sendiráðsins í Brussel sem fór fram í desember síðastliðnum. Fimm pör unnu þar miða en munu ekki geta nýtt sér þá.

Hættu við Ameríkutúr vegna andlegrar þreytu

Hatari er ekki eina hljómsveitin sem hefur hætt við tónleikaferðalag sitt upp á síðkastið. Íslenska rokkhljómsveitin Vintage Caravan tilkynnti fimmtudaginn 15. janúar að hún væri hætt við tónleikaferðalag sitt um Suður-Ameríku vegna andlegrar þreytu.

Ferðalagið átti að hefjast 22. janúar í Rio de Janeiro í Brasilíu og enda í Mexíkó 8. febrúar með viðkomu í Argentínu og Kosta Ríka.

Óskar Logi Ágústsson, stofnaði Vintage Caravan árið 2006 þegar hann var tólf ára gamall.Vísir/Vilhelm

„Við höfum keyrt okkur áfram síðastliðin tólf ár og aldrei fyrr fellt niður tónleikaferðalag en nú höfum við lent á vegg og því miður er okkur engra kosta völ,“ sagði í tilkynningu hljómsveitarinnar um ákvörðunina.

Löng ferðalög og lítill svefn myndi hafa slæm áhrif á heilsu hljómsveitarmeðlima og því hefðu þeir tekið ákvörðunina.

„Við elskum vini okkar í Rómönsku-Ameríka og okkur þykir leitt að valda ykkur vonbrigðum,“ sagði einnig. Þökkuðu þeir skipuleggjendum tónleikaferðalagsins og bentu aðdáendum á að hægt væri að fá endurgreitt á tónleikastöðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.