Innlent

Taldi sig mega birta nektar­myndir af fyrr­verandi en dómarinn hélt ekki

Árni Sæberg skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í málinu.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í málinu. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið dæmdur til fjögurra mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir kynferðisbrot gagnvart fyrrverandi kærustu sinni. Hann gekkst við því að hafa birt nektarmyndir af henni á netinu eftir að hótað að gera það. Hann bar fyrir sig að hann hefði ýmist tekið myndirnar eða hún sent honum þær og því hefði hann mátt birta þær opinberlega. Dómari féllst ekki á þann málatilbúnað en sýknaði manninn hins vegar af broti í nánu sambandi, þar sem samband þeirra var ekki talið slíkt.

Dómur þess efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 15. janúar síðastliðinn. Vísir fjallaði um ákæru á hendur manninum í nóvember síðastliðnum en þar kom fram að maðurinn væri ákærður fyrir fjölda kynferðisbrota, brot í nánu sambandi og stórfelldar ærumeiðingar gagnvart fyrrverandi kærustu sinni.

Átta liða ákæra

Ákæran var í átta liðum og í fyrsta var hann ákærður fyrir að hafa sent konunni tölvupósta og ein skilaboð á óþekktum samfélagsmiðli, með hótunum um að dreifa nektarmyndum af konunni og myndabandi, sem sýndi nekt hennar, auk þess að senda henni slíkar myndir og myndband.

Háttsemi hans hafi verið til þess fallin að vekja hræðslu og kvíða hjá henni, særa blygðunarsemi hennar, smána hana og móðga.

Í ákæruliðum tvö til sex var manninum gefið að sök að hafa dreift nokkrum fjölda nektarmynda á Instagramreikningum. Meðal myndanna sem hann var sakaður um að dreifa voru myndir sem sýndu konuna bera að neðan í fjöru.

Þá var hann ákærður fyrir að hafa dreift tengli inn á vefsvæði sitt á ótilgreindri vefsíðu og birt þar 21 nektarmynd af konunni, sem hafi verið til þess fallnar að smána hana og móðga.

Stílaði bréf á helstu fjölmiðla Bretlands

Loks var maðurinn ákærður fyrir að hafa sent bréf, sem stílað var á helstu fjölmiðla Bretlands, á vinkonu konunnar. Þar hafi meðal annars komið fram viðkvæmar og persónulegar upplýsingar um líf konunnar og foreldra hennar, auk þess sem vísað hafi verið á einn þeirra Instagramreikninga sem maðurinn hafði stofnað.

Í dóminum kemur fram að konan hafi verið búsett á Englandi þegar hún kynntist manninum, sem er íslenskur. Þau hafi átt í samskiptum um nokkurt skeið í gegnum net og síma, varið tíma saman í Kaupmannahöfn og hafið þar kynferðisleg samskipti og loks hafi konan búið hjá manninum um nokkurra mánaða skeið á Íslandi. 

Að skammri sambúð lokinni hafi hún flutt aftur til London, þar sem hún hafi búið þegar maðurinn hóf að senda henni skilaboðin og birta af henni myndirnar.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að vafi um að slíkt samband teldist náið samband í skilningi almennra hegningarlaga skyldi túlkaður manninum í hag. Því var hann sýknaður af ákæru um brot í nánu sambandi.

Samþykki lá ekki fyrir

Þá segir í dóminum að maðurinn hafi borið því við að hafa haft heimild konunnar til að birta myndir af henni. 

„Kvaðst hann eiga myndirnar, bæði þær sem hann tók af henni og þær sem brotaþoli sendi honum,og hafa fengið samþykki brotaþola fyrir því að birta þær.“

Niðurstaða dómsins var að með vísan til framburðar konunnar, þess að engin gögn lægju fyrir um fullyrðingar mannsins og ótrúverðugs framburðar mannsins að maðurinn hefði birt myndirnar án samþykkis konunnar.

Því var hann sakfelldur fyrir kynferðislega áreitni gagnvart konunni. Hann var sem áður segir sýknaður af ákæru fyrir brot í nánu sambandi.

Við ákvörðun refsinga var litið til þess að brot mannsins hafi verið umfangsmikil, ásetningur hans sterkur og með þeim hafi hann brotið gróflega gegn friðhelgi konunnar og valdið henni mikilli vanlíðan, auk þess að skaða atvinnustarfsemi hennar.

Þó var einnig litið til þess að fjögur og hálft ár liðu frá því málið var kært til lögreglu og þar til ákæra var gefin út. Refsing hans þótti því hæfilega ákveðin fjögurra mánaða fangelsisvist, skilorðbundin til tveggja ára.

Honum var gert að greiða tvo þriðju hluta þóknunar verjanda hans og réttargæslumanns konunnar, sem var alls 5,45 milljónir króna, og miskabætur til handa konunni upp á 1,5 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×