Innlent

Náðu sex byssum úr byssuskáp á Akur­eyri

Árni Sæberg skrifar
Lögreglan á Akureyri hafði uppi á þjófunum og byssunum.
Lögreglan á Akureyri hafði uppi á þjófunum og byssunum. Vísir/Vilhelm

Síðastliðið mánudagskvöld var tilkynnt um innbrot á Akureyri. Skotvopnaskápur hafði verið brotinn upp í læstri geymslu í sameign og sex skotvopnum stolið þaðan.

Í tilkynningu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra þess efnis segir að rannsókn málsins hafi hafist samstundis og á mánudagskvöldinu og aðfaranótt þriðjudags hafi þrír verið handteknir og húsleit framkvæmd á tveimur stöðum. Eitt skotvopn hafi fundist í upphafi rannsóknaraðgerða en sólarhring síðar, í gærkvöldi, hafi hin fimm skotvopnin fundist.

Hinir handteknu hafi verið látnir lausir að yfirheyrslum loknum en málið sé enn til rannsóknar.

„Í málinu voru skotvopnin vörsluð á viðeigandi hátt í skotvopnaskáp eins og lög gera ráð fyrir. Af skotvopnum stafar hins vegar alltaf hætta séu þau ekki í höndum réttra aðila. Þá eru stolin skotvopn einnig álitleg vara í ólöglegum viðskiptum og vill lögregla beina því til skotvopnaeigenda að tryggja vörslur þeirra á hverjum tíma og vera vakandi fyrir hvers kyns öryggisbrestum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×