Sport

Segir Napoli ekki nógu gott fyrir sex­tán liða úr­slit

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Antonio Conte var niðurlútur á blaðamannafundi eftir leikinn í gær.
Antonio Conte var niðurlútur á blaðamannafundi eftir leikinn í gær. Kristian Tuxen Ladegaard Berg/NurPhoto via Getty Images

Antonio Conte skilur ekkert í því hvernig Napoli gat gert jafntefli við FC Kaupmannahöfn í Meistaradeildinni í gærkvöldi, eftir að hafa verið marki yfir og manni fleiri. Hann segir liðið ekki vera á því getustigi sem þarf til að komast í sextán liða úrslit.

Allt virtist vera að ganga upp fyrir Napoli þegar flautað var til hálfleiks. Thomas Delaney var rekinn af velli með rautt spjald og Scott McTominay tók forystuna fyrir Napoli skömmu síðar.

Tíu leikmönnum FCK tókst hins vegar að taka völdin í seinni hálfleik og tryggja sér jafntefli, þökk sé marki Jordan Larsson.

Klippa: FC Kaupmannahöfn - Napoli 1-1

„Þetta fannst mér sárt og þetta ætti að særa leikmenn líka. Við eigum að vera mjög reiðir út í okkur sjálfa. Leikurinn spilaðist fullkomnlega fyrir okkur, til að tryggja sigurinn og sæti í umspilinu. Við getum örugglega fundið þúsund afsakanir en þetta gekk bara ekki upp og við gátum ekki unnið í þessum kringumstæðum“ sagði Conte eftir leikinn.

„Þetta var fjórði leikurinn í röð þar sem liðið sýnir veikleikamerki. Við vorum alveg við stjórn, ellefu á móti tíu, þannig að þó við söknum tíu leikmanna og séum þreyttir þá eigum við að vinna svona leiki“ hélt Conte áfram en Napoli hefur gert fjögur jafntefli í síðustu fimm leikjum.

Ítalíumeistararnir eru nú í þeirri stöðu að þurfa helst að vinna Chelsea á heimavelli í næstu umferð til að tryggja sér sæti í umspilinu um að komast í sextán liða úrslit. Conte gaf hins vegar í skyn að liðið væri ekki nógu gott til að komast þangað.

„Vonbrigðin eru svo mikil því við náðum ekki markmiðinu okkar í [gær]kvöld, en það sýnir bara að við erum ekki að spila á því getustigi sem þarf í þessu móti. Það er ekki mikið meira hægt að segja, við eigum að vera reiðir við okkur sjálfa því þetta var gullið tækifæri, en kannski skildum við ekki alveg hvað var undir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×