Innlent

Kvaðst hafa drepið fjöl­skylduna og ætlað að stinga sig í hjartað

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Óhugnanlegar lýsingar koma fram í nýbirtum úrskurði Landsréttar í Edition-málinu frá því í sumar. 
Óhugnanlegar lýsingar koma fram í nýbirtum úrskurði Landsréttar í Edition-málinu frá því í sumar.  Vísir

Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á andláti franskra feðgina á Edition-hótelinu í júní er lokið. Konan sem grunuð er um að hafa orðið eiginmanni sínum og dóttur að bana játaði á vettvangi að hafa drepið þau, og sagðist hafa ætlað að drepa sjálfa sig í leiðinni, en neitar sök í dag. 

Þetta kemur fram í nýbirtum úrskurði Landsréttar síðan í sumar, sem snerist um hvort konan, sem einnig er franskur ríkisborgari, ætti að sæta geðrannsókn. 

Ríkisútvarpið greinir frá því að rannsókn á málinu, sem stóð yfir í 219 daga, sé lokið og það komið á borð héraðssaksóknara. Konan neiti sök. Miðillinn greinir sömuleiðis frá birtingu úrskurðarins. 

Sagðist vilja hlífa dótturinni vegna dauðvona eiginmannsins

Landsréttur úrskurðaði að konan skyldi sæta geðrannsókn en í honum eru málsatvik, sem áður hafa ekki komið fram, ítarlega rakin. Varað er við þeim lýsingum sem koma fram hér að neðan. 

Þann 14. júní barst lögreglu tilkynning frá starfsfólki Edition-hótelsins sem óskaði eftir aðstoð vegna þess að kona hefði fallið í sturtu á herbergi hótelsins. 

Síðar bárust upplýsingar um að konan væri með stungusár á bringu eftir hníf auk þess að vera vopnuð hnífi. Meðvitundarlaus maður lægi á gólfinu í hótelherberginu og búið væri að breiða yfir hann lak. 

Þegar lögreglumenn komu á vettvang sat kona á gólfinu, með sjáanlegt sár á bringunni, og sagði við lögreglu að hún hefði drepið tvær manneskjur. 

Á gólfinu lá karlmaður, eiginmaður hennar, sem var orðinn kaldur viðkomu en búið var að breiða lak yfir líkama hans. Hann reyndist vera með tvo stunguáverka á kvið. 

Í rúminu lá föl kona, dóttir konunnar, sem leit út fyrir að vera látin. Hún var með tvo stunguáverka við brjóst. 

Töluvert af blóði var á gólfinu og blóðugum handklæðum og fatnaði í herberginu og inni á baðherberginu. Þá fannst hnífur á sturtugólfinu.

Á leið af vettvangi og á bráðamóttöku tjáði konan lögreglu að líkin væru af eiginmanni hennar og dóttur. Þá sagði hún við hjúkrunarfræðing, þannig að lögreglumaður heyrði til, að eiginmaður hennar væri dauðvona og hún hafi ekki viljað að dóttir þeirra, sem var á þrítugsaldri, yrði ein eftir lifandi. 

Þá sagðist hún hafa ætlað að drepa sjálfa sig með því að stinga sig í hjartað.

Lætur vita af sér tvisvar í viku

Greint var frá því í sumar að fjölskyldan hafi sent ættingjum sínum þrjár erfðaskrár meðan á Íslandsdvöl þeirra stóð. Eignir upp á rúman milljarð króna eiga að hafa verið taldar þar upp.

Fram kemur í úrskurðinum, sem kveðinn var upp þann 4. júlí, að rannsókn lögreglu sé umfangsmikil og flókin. Konan sé grunuð um að hafa veist með ofbeldi að eiginmanni sínum og dóttur með þeim afleiðingum að þau létust.

Í úrskurðinum kemur fram að ýmislegt í gögnum málsins bendi til þess að konan hafi verið haldin andlegum veikindum þegar atvikið varð. Þá hafi hún borið við minnisleysi um málsatvik. Sem fyrr segir var fallist á kröfu um geðrannsókn. 

Konan sat í gæsluvarðhaldi til og með 4. september en hefur síðan þá sætt farbanni. Í umfjöllun Rúv kemur fram að það sé í höndum héraðssaksóknara að ákveða næstu skref. Konan mæti á tiltekna lögreglustöð tvisvar sinnum í viku til að láta vita af sér. 


Tengdar fréttir

Tveir ferðamenn fundust látnir á Edition

Tveir erlendir ferðamenn fundust látnir á Edition-hóteli í miðborg Reykjavíkur í morgun. Þriðji ferðamaðurinn var færður undir læknishendur.

„Þetta er stórt mál og tekur auðvitað tíma“

Rannsókn lögreglunnar á andláti tveggja ferðamanna á hótelinu Reykjavík Edition miðar ágætlega, en konan sem grunuð er um manndráp hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 27. ágúst.

Skýrsla tekin af frönsku konunni og búið að ræða við vitni

Búið er að taka skýrslu af frönsku konunni sem grunuð er um að hafa orðið eiginmanni sínum og dóttur að bana á hótelherbergi á Edition í Reykjavík í gær. Rætt hefur verið við vitni og rannsókn miðar þokkalega áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×