Innlent

Mikil­vægt að vanda sig og beita var­úð

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.
Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. vísir/ívar

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra segir mikilvægt að fara varlega með gervigreind í starfsemi háskóla í kjölfar frétta um að yfirstjórn Bifrastar hafi notað gervigreind til að meta höfundarstöðu þriggja starfsmanna skólans.

Greint var frá því í gær að yfirstjórn Bifrastar hafi notast við gervigreindina Claude til að meta hvort þrír starfsmenn skólans væru réttilega skráðir meðhöfundar tveggja fræðigreina. Að mati lögfræðings starfsmannanna fer það gegn sjónarmiðum um persónuvernd og höfundarrétt.

Félag akademískra starfsmanna við Bifröst samþykkti á fundi á miðvikudag að lýsa yfir vantrausti gegn Margréti Jónsdóttur Njarðvík, rektor skólans, og deildarforseta viðskiptadeildar og rannsóknarstjóra skólans vegna þessa.

Stjórn Bifrastar kemur saman á næstu dögum til að kanna málið og þá er málið komið fyrir siðanefnd Bifrastar en einnig hefur verið send ábending til Persónuverndar.

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, segir mikilvægt að málið verði leyst á farsælan máta.

„Ég mun ekki beita mér sérstaklega í þessu máli. Þetta er auðvitað sjálfseignarstofnun í einkaeign og nýtur auðvitað sjálfstæðis og ráðherra stígur ekki inn í slík mál.“

Að mati lögfræðings starfsmanna Bifrastar er röksemdafærsla gervigreindarinnar verulega loðin og rökin ósannfærandi miðað við minnisblöð yfirstjórnar.

„Ég held það skipti miklu máli, og þetta hef ég verið að ræða töluvert að undanförnu. Gervigreindin er ofboðslega öflugt verkfæri. Eins og öll slík, þá er vandasamt að fara með hana. Fólk þarf bara að fóta sig í þessari nýju tækni og beita varúð.“

Í gögnum málsins kemur fram að rektor hafi óskað eftir því við siðanefnd skólans að starfsmennirnir þrír yrðu ekki upplýstir um að mál þeirra væri til skoðunar. Í svörum siðanefndar segir að það verklag gangi ekki upp því það fari gegn stjórnsýslulögum. Inntur eftir viðbrögðum við þessu segir Logi:

„Það hafa engar slíkar upplýsingar borist inn á okkar borð og raunar engar upplýsingar beint frá skólanum á okkar borð. Enda er þetta sjálfseignarstofnun í einkaeign. Við höfum lesið ýmislegt úr fjölmiðlum en það er ekki alltaf öruggt að draga ályktanir af því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×