Körfubolti

„Var í raun bara verið að yfirspila okkur“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR.
Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR. Vísir/Diego

„Mér leið vel í framlengingunni. Fyrir utan það leið mér ekkert sérstaklega vel,“ sagði Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR, eftir dramatískan þriggja stiga sigur liðsins gegn Þór Þorlákshöfn í Bónus-deild karla í körfubolta í kvöld.

„Á tímabili, í lok fyrri hálfleiks og stóran hluta seinni hálfleiks, var í raun bara verið að yfirspila okkur. Við áttum engin svör og við náðum ekki stoppi á þá. Þannig mér leið ekkert vel í gegnum leikinn, en í framlengingunni leið mér vel.“

Það er kannski ekkert skrýtið að Jakobi hafi ekki liðið vel á meðan venjulegum leiktíma stóð, en hans menn lentu mest 19 stigum undir þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka. 

KR-ingar náðu þó að snúa dæminu við, koma sér í framlengingu og vinna dramatískan sigur.

„Það breyttist ekkert sérstaklega þannig séð. Stundum er ekkert að ganga upp og svo náum við nokkrum stoppum og stelum nokkrum boltum. Þá fáum við auðveldar körfur og þeir taka leikhlé og við fáum bara smá mómentum með okkur. Þegar það gerist þá verður karfan aðeins stærri og við erum að hitta líka vel. Það var ekkert annað sem gerðist í rauninni.“

Hann hrósar sínum mönnum fyrir mikinn og góðan karakter.

„Það jákvæða er náttúrulega bara karakterinn í liðinu. Það stóðu allir saman í gegnum allt og við fundum leiðir til að vinna leikinn. Það er það sem við tökum með okkur. Og tvö stig.“

„En varnarleikurinn oft og tíðum var alls ekki nógu góður og sérstaklega í því sem við ætluðum að reyna að taka burt frá Þór, sem voru þriggja stiga skot. Þeir voru með 14 þriggja stiga skot ofan í í fyrri hálfleik, þannig það gekk klárlega ekki upp og það er klárlega eitthvað sem við þurfum að skoða.“

Mannabreytingar framundan

Þá vakti athygli að það vantaði tvo erlenda leikmenn í lið KR í kvöld. Hvorki Aleksa Jugovic né Vlatko Granic voru með Vesturbæjarliðinu í kvöld.

„Þeir verða ekki meira með okkur í vetur. Við ákváðum að láta Aleksa fara og hann Vlatko meiddist rétt fyrir áramót. Hann komst í myndatöku núna á mánudaginn sem við fengum niðurstöðu úr á þriðjudaginn og hann er bara mjög illa meiddur á ökkla. Það er bara töluvert langt í að hann geti spilað körfubolta aftur.“

Að lokum segir hann að KR-ingar séu nú að leita að mönnum í þeirra stað.

„Við að sjálfsögðu erum bara að reyna að skoða. Það er náttúrulega tiltölulega stutt síðan við fengum að vita með Vlatko, að hann myndi ekki spila meira á þessu tímabili, þannig að við erum núna bara að skoða hvað er í boði, sem er erfitt. Markaðurinn er erfiður í janúar fyrir Evrópumenn, en við sjáum hvað kemur,“ sagði Jakob að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×