Innlent

Dæmi um að nem­endur hafi aldrei mætt í leik­fimi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kjartan hefur starfað sem íþróttakennari í tæp 25 ár. Hann segir miikla breytingu hafa orðið á þeim tíma. Nú sé fjöldi þeirra nemenda sem forðist íþróttatíma mun meiri en áður.
Kjartan hefur starfað sem íþróttakennari í tæp 25 ár. Hann segir miikla breytingu hafa orðið á þeim tíma. Nú sé fjöldi þeirra nemenda sem forðist íþróttatíma mun meiri en áður. Vísir

Íþróttakennari til 25 ára segir þátttöku barna í skólaleikfimi hafa dregist mjög saman á undanförnum árum. Almenn vanlíðan meðal nemenda hafi aukist og dæmi eru um að börn hafi verið í skólanum hans í nokkurn tíma án þess að hafa mætt í íþróttatíma.

Hreyfing barna og þátttaka þeirra í skólaleikfimi var til umræðu á vetrarmóti íþróttakennara, sem fram fór í Háskólanum í Reykjavík á dögunum. Kjartan Stefánsson, sem hefur starfað sem íþróttakennari í tæp 25 ár, segir mikla breytingu hafa orðið á þátttöku í leikfimi á undanförnum árum.

„Við höfum verið með ýmsa staðla til að miða við hvað nemandi á ákveðnum aldri gat gert eða gerði. Þetta hefur allt saman minnkað töluvert,“ segir Kjartan. Hann nemi að almenn vanlíðan hafi aukist meðal nemenda.

„Kvíði er mjög vaxandi og viðfangsefni sem voru manni frekar auðveld eru farin að verða aðeins þyngri,“ segir hann.

„Það er eitthvað sem maður hnítur um að það eru fleiri sem kvíða því að vera í þessu rými. Ég hef aldrei upplifað það áður. Kvíði fyrir aðstæðum sem eru óvæntar.“

Börn sem aldrei komi í leikfimi

Hópurinn sem forðist þátttöku sé fjölmennari en áður.

„Áður fyrr vissi maður upp á hár hverjir það væru sem leið ekki alveg jafn vel í íþróttatímum. Þannig gat maður nálgast það og reynt að fá þá til að mæta og upplifa hreyfingu á jákvæðan hátt. Núna er breytingin kannski sú að það eru þessi þöglu börn, sem fara svolítið fram hjá manni,“ segir Kjartan.

„Ég upplifi það alveg að nemendur jafnvel hafi verið í skólanum hjá mér í dágóðan tíma en aldrei komið í íþróttir.“

Námsefnið lagað að hverjum og einum

Flestir íþróttakennarar hafi mætt þessu með því að aðlaga námsefnið að hverjum og einum. Treysti sér einhver ekki til að taka þátt í því sem fyrir er lagt bjóðist eitthvað annað. Þá sé boðið upp á fjölbreyttari hreyfingu, sem Kjartan telur hjálpa mikið til.

„Þróun hefur átt sér stað í íþróttunum. Nú man ég hvernig ég byrjaði þetta 2001 og ef ég horfi til dagsins í dag þá er nálgun mín allt önnur en hún var 2001,“ segir Kjartan.

Hann reyni til dæmis að nálgast suma út frá áhugasviði þeirra ef þess þarf til að fá viðkomandi til að taka þátt.

„Einstaklingar sem eru til dæmis meiddir, og hefðu áður bara ekki tekið þátt, fá aðstöðu til að gera æfingarnar sínar, sem þeir fá frá sjúkraþjálfara, og mæta í íþróttir á sínum forsendum. Við reynum að verða við öllu svona, þannig að sú nálgun er til dæmis mjög breytt.“

Fagnar símabanni

Hann segir símana klárlega hafa áhrif á íþróttaforðun. Menntamálaráðherra hefur boðað samfélagsmiðlabann fyrir börn og ungmenni sem Kjartan fagnar.

„Ég held að það sé einn af þessum þáttum. Ég held að það myndi hjálpa mikið til. Það eru flestir skólar búnir að taka upp einhvers konar símabann eða símapásu og það hefur gefist mjög vel.“

Forðunin eigi ekki einungis við íþróttir heldur almennt um skólasókn.

„Skólastjórnendur eru að gera sitt allra besta til að koma í veg fyrir ákveðna skólaforðun. Mér finnst þeim tilfellum fjölga. Það er kannski það sem ég hef mestar áhyggjur af, að það sé skólaforðun,“ segir Kjartan.


Tengdar fréttir

Í fyrsta sinn fleiri börn með offitu en í undirþyngd

Í fyrsta sinn frá því mælingar hófust reynast fleiri börn og unglingar á skólaaldri á heimsvísu glíma við offitu en undirþyngd samkvæmt nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF. Eitt af hverjum tíu börnum á heimsvísu glíma við offitu samkvæmt skýrslunni og er markaðssetning mikið unninna matvæla sögð meðal mögulegra sökudólga.

70 prósent landsmanna hlynnt banni

Um 70 prósent Íslendinga eru hlynnt því að samfélagsmiðlar verði bannaðir börnum yngri en 16 ára. Þetta eru niðurstöður könnunar Prósents, sem gerð var dagana 12. til 29. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×