Erlent

Trump sýndi verka­manni puttann

Eiður Þór Árnason skrifar
Trump Bandaríkjaforseti sést hér í umræddri verksmiðjuheimsókn í dag að ræða við stjórnarformann og forstjóra Ford.
Trump Bandaríkjaforseti sést hér í umræddri verksmiðjuheimsókn í dag að ræða við stjórnarformann og forstjóra Ford. Ap/Evan Vucci

Donald Trump Bandaríkjaforseti sást sýna verkamanni puttann í heimsókn sinni í verksmiðju bílaframleiðandans Ford í dag. Atvikið átti sér stað eftir að starfsmaðurinn virtist saka forsetann um að slá skjaldborg um barnaníðinga.

Í kjölfarið virðist Trump segja verkamanninum að fara til fjandans rétt áður en langatöng hans sést fara á loft, ef marka má myndskeið sem TMZ birtir af atvikinu.

Í frétt bandaríska miðilsins segir að forsetinn hafi verið að kynna sér starfsemi verksmiðjunnar í Detroit-borg í Michigan en hún er nýtt til að framleiða hina vinsælu Ford F-150 trukka. Á meðan hann gekk um verksmiðjuna ásamt föruneyti heyrist einhver hrópa óljósa setningu að Trump sem endar með því að hann er kallaður „verndari barnaníðings“ (e. pedophile protector). 

Líkur eru á því að þar sé vísað til barnaníðingsins Jeffrey Epsteins sem var góður vinur Trumps áður en ósætti kom upp á milli þeirra. Ríkisstjórn Trumps hefur verið gagnrýnd fyrir seinagang við birtingu skjala úr dómsmálum og rannsóknum tengdum Epstein og miklar yfirstrikanir gagna.

Ver tollaákvarðanir sínar

Í frétt AP-fréttaveitunnar segir að Bandaríkjaforseti hafi mætt í verksmiðjuna í dag til að vekja athygli á aðgerðum sem miðaðar séu að því að efla iðnaðarframleiðslu í Bandaríkjunum. Þá hafi hann einnig varið umdeildar tollaákvarðanir sínar. Með þessu vilji hann slá á ótta um niðursveiflu í atvinnulífinu og áhyggjur af áframhaldandi verðbólgu. 

Sjá einnig: Rannsaka nú og skoða ákærur gegn seðlabankastjóranum

Trump fylgdi heimsókn sinni í Ford-verksmiðjuna eftir með því að skjóta á Jerome Powell, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, og ýja að því að hann hafi rænt sig gleði með því að vera ekki nógu ákveðinn í því að lækka stýrivexti, að sögn AP. Bandaríkjastjórn hefur hafið rannsókn á Powell og er hún sökuð um að reyna að grafa undan sjálfstæði seðlabankans.


Tengdar fréttir

Fundu yfir milljón skjöl sem tengjast Epstein

Bandarísk stjórnvöld hafa fundið yfir milljón skjöl sem gætu tengs máli barnaníðingsins Jeffrey Epstein. Þó nokkur skjöl hafa verið birt opinberlega og stendur til að birta nýju skjölin.

Málið sem Trump getur ekki losað sig við

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og ráðgjafar hans í Hvíta húsinu eru sagðir hafa vonast til þess að geta losnað við vandræðin sem fylgt hafa máli Jeffreys Epstein í vikunni. Það átti að gerast með opinberun Epstein-skjalanna svokölluðu sem dómsmálaráðuneytið átti að birta í heilu lagi á föstudaginn.

Rannsaka nú og skoða ákærur gegn seðlabankastjóranum

Bandarískir alríkissaksóknarar hafa myndað ákærudómstól sem ætlað er að rannsaka Jerome Powell, seðlabankastjóra, og mögulega ákæra hann. Rannsóknin tengist vitnisburði hans á þingfundi þar sem hann var spurður út í endurbætur á húsnæði seðlabankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×