Körfubolti

Stjarnan og Valur á sigurbraut í Bónus deildinni

Aron Guðmundsson skrifar
Diljá Ögn Lárusdóttir í leik með Stjörnunni
Diljá Ögn Lárusdóttir í leik með Stjörnunni Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Stjarnan og Valur unnu leiki sína í Bónus deild kvenna í körfubolta í kvöld. 

Stjarnan heimsótti Keflavík í Blue-höllina og vann þar frábæran fjórtán stiga sigur 92-78. Ruth Helena Sherill átti magnaðan leik í liði Stjörnunnar. Hún setti niður tuttugu og fjögur stig og reif niður tuttugu fráköst.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en Stjörnukonur áttu síðan eftir að ráða ferðinni að mestu eftir hann. Sigurinn sér til þess að liðið er nú í 7.sæti með 12 stig, fjórum stigum minna en Keflavík sem er í 6.sæti.

Á sama tíma tók Valur á móti nýliðum Ármanns í leik sem var kannski heldur meira spennandi undir lokin en menn áttu von á. 

Svo fór að leiknum lauk með fjögurra stiga sigri Vals, sem fer þar með upp í þriðja sæti deildarinnar þar sem liðið er með átján stig. Ármann er áfram í níunda sæti með fjögur stig.

Reshawna Rosie Stone var stigahæst í liði Vals í kvöld með 25 stig. Þá reif hún einnig niður sex fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Dagbjört Dögg átti einnig góðan leik og setti niður tuttugu stig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×