Erlent

Fundurinn í Washington gæti reynst ör­laga­ríkur

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Jens-Frederik Nielsen og Mette Frederiksen mættu samstillt til blaðamannafundar í danska forsætisráðuneytinu í dag.
Jens-Frederik Nielsen og Mette Frederiksen mættu samstillt til blaðamannafundar í danska forsætisráðuneytinu í dag. EPA/LISELOTTE SABROE

Afdráttarlaus ummæli sem forsætisráðherrar Grænlands og Danmerkur létu falla á sameiginlegum blaðamannafundi í Kaupmannahöfn í dag ættu að senda stjórnvöldum í Washington skýr skilaboð um að Grænland sé ekki til sölu, grænlenska þjóðin fáist ekki keypt, og að ríkin standi saman um að standa vörð um landamæri danska konungsríkisins. Á sama tíma þykir blaðamannafundurinn hafa verið til marks um mikilvægi þess að dönsk og grænlensk stjórnvöld komi samstillt til fundarins í Hvíta húsinu á morgun þar sem mikið er í húfi fyrir grænlensku þjóðina.

Þótt það hafi verið utanríkisráðherrar Grænlands og Danmerkur sem óskuðu eftir fundi með kollega sínum Marco Rubio í Bandaríkjunum þá eru ekki allir greinendur sem telja það góð tíðindi fyrir Grænland og Dani að varaforsetinn JD Vance hafi einnig boðað komu sína á fundinn. Þátttaka Vance á fundinum sé jafnvel til marks um stigmögnun í deilum ríkjanna.

Sjá einnig: Vance ætlar að sitja fundinn með Løkke og Rubio

Vance verður gestgjafi fundarins í Hvíta húsinu á morgun, en hann hefur til þessa verið mjög gagnrýninn á Danmörku sem hann segir alls ekki hafa staðið sig nægilega vel í að tryggja varnir Grænlands. Fjallað var nánar um málið í kvöldfréttum Sýnar í kvöld.

Eftir að hávær umræða um að Bandaríkin „verði“ að eignast Grænland fór aftur á flug í síðustu viku, var það von danskra og grænlenskra stjórnvalda að geta átt beint og milliliðalaust samtal við stjórnvöld í Washington til að árétta að Grænland sé ekki til sölu og að Grænlendingar vilji ekki verða hluti af Bandaríkjunum, en um leið ræða hvaða leiðir sé hægt að fara til að tryggja varnir landsins og Norðurslóða enn betur, á grundvelli samvinnu við Bandaríkin. Undanfarna viku hefur umræðan að mestu farið fram í gegnum yfirlýsingar í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum, og því óskuðu Lars Løkke Rasmussen og Vivian Motzfeldt eftir samtali við Rubio, í von um að draga umræðuna niður á jörðina og koma sjónarmiðum sínum beint á framfæri við bandarísk stjórnvöld.

Eftir því sem umræðunni hefur undið fram, og ekki síst eftir að ljóst varð að Vance verði með á fundinum, þykir hins vegar ljóst að það gæti verið flókinn og erfiður fundur í vændum fyrir norrænu utanríkisráðherrana tvo. Trump og hans fólk hafa með engu móti dregið úr yfirlýstum vilja um að Bandaríkin eignist Grænland, en síðast í nótt deildi Hvíta húsið myndum á samfélagsmiðlum sem virðast sýna Trump Bandaríkjaforseta horfa út um glugga á skrifstofu sinni, þar sem fyrir utan er stórt kort af Grænlandi. Trump hefur ítrekað sagst þurfa Grænland til að tryggja þjóðaröryggi, Danir hafi staðið sig illa í að tryggja það, og honum nægi ekki víðtækar heimildir til frekari varnaruppbyggingar og aukinna hernaðarumsvifa á Grænlandi á grundvelli fyrirliggjandi varnarsamnings á milli ríkjanna.

Ljóst er að allra augu verða á Washington á morgun en gert er ráð fyrir að fundurinn hefjist klukkan 15:30 að íslenskum tíma á morgun samkvæmt heimildum danskra fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×