Innlent

Borgin firrti sig allri á­byrgð á skemmunni

Árni Sæberg skrifar
Skemman er ónýt eftir brunann.
Skemman er ónýt eftir brunann. Vísir/Vilhelm

Samkvæmt leigusamningi Reykjavíkurborgar og Truenorth um skemmuna í Gufunesi, sem brann í gær, ber borgin enga ábyrgð á tjóni á eignum Truenorth vegna brunans. Forsvarsmenn félagsins hafa sagt ómetanlega sögulega muni hafa verið í skemmunni þegar hún brann en hún var notuð undir gamla leikmuni.

Stórbruni varð í Gufunesi í Reykjavík í gær þegar skemma að Gufunesvegi brann til kaldra kola. Kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Truenorth hafði skemmuna á leigu en Reykjavíkurborg er eigandi hennar. Fyrirtækið nýtti skemmuna undir gamla leikmuni og þess háttar en slökkvilið telur að allt sem í henni var sé ónýtt.

„Það er bara ömurlegt að horfa upp á þetta. Því þetta eru leikmunir sem við höfum verið að safna í gegnum árin þannig að þetta er verulegt tjón fyrir okkur. Það er ekkert tjón á mannskap eða neitt svoleiðis sem betur fer,“ sagði Guðjón Davíðsson, stjórnarformaður Truenorth, í samtali við fréttastofu í gærkvöldi.

Upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar segir borgina harma tjón Truenorth.

„Reykjavíkurborg harmar það tjón sem leigutakar hjá True North og aðrir sem áttu þar muni hafa orðið fyrir í brunanum sem varð í Gufunesi í gærkvöld. Skemman var leigð út að undangenginni auglýsingu í byrjun árs 2024 og leigutaki var upplýstur um að um væri að ræða tímabundna leigu í því ástandi sem húsið var á þeim tíma á meðan svæðin væru enn í skipulags- og uppbyggingaferli. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú upptök eldsins,“ segir í yfirlýsingu borgarinnar.

Varað við rafmagninu

Vettvangur brunans var afhentur lögreglu til rannsóknar í gærkvöldi en ekki liggur fyrir hvernig eldurinn kviknaði. Lögreglan hefur hins vegar ekki enn komist inn í skemmuna þar sem kviknað hefur í glæðum í nótt og í dag. 

Í febrúar 2024 birti Framfarafélag Gufuness færslu á Facebook-síðu sinni vegna þess að Reykjavíkurborg hafði auglýst skemmuna til leigu. Skemman hefur meðal annars verið kölluð Skemma 7.

Framfarafélagið beindi spurningum til borgaryfirvalda um hvort búið væri að gera úrbætur á því sem ábótavant hafði verið á meðan skapandi starf var í húsinu. Meðal þess sem hópurinn taldi að gera þyrfti úrbætur á voru raflagnir skemmunnar.

„Til þess að hægt sé að byggja upp skapandi starfsemi á svæðinu er nauðsynlegt að borgin sinni viðhaldi á húsnæðinu sem hún leigir út, hér eins og annars staðar,“ sagði í Facebook-færslu framfarafélagsins.

Leigðu skemmuna tímabundið

Í leigusamningi Reykjavíkurborgar og Truenorth um skemmuna, sem undirritaður var þann 14. mars árið 2024, segir að borgin hafi auglýst húsnæðið til leigu um miðjan febrúar sama árs. Við skoðun hafi komið fram að húsnæðið yrði leigt í því ástandi sem það var og að Reykjavíkurborg myndi ekki leggja til fjármagn til endurbóta eða viðhalds skemmunnar.

„Ennfremur var leigutaki upplýstur um að hugmyndafræði verkefnisins væri að auglýsa eftir tímabundnum leigjanda á meðan svæðin væru enn í skipulags- og uppbyggingarferli. Leigutaka var bent á að skoða vandlega kosti og galla húsnæðisins.“

Ekki í samræmi við húsaleigulög

Í samningum segir að skemman sé rúmlega 1.100 fermetrar og leiguverðið 1.100 þúsund krónur á mánuði, rétt tæplega eitt þúsund krónur á fermetrann. Leigukjör taki mið af ástandi skemmunnar og verkefninu, sem hugsað sé til skamms tíma.

„Hið leigða er afhent í núverandi ástandi sem leigutaki hefur kynnt sér og sætt sig við að öllu leyti, þar með taldar hugsanlegar myglu-, raka- og vatnsskemmdir sem leigutaki gerir ekki athugasemd við. Með vísan til þess er leigutaka ljóst að ástand hins leigða er ekki að öllu leyti í samræmi við kröfur III. kafla húsaleigulaga, nr. 36/1994 og almennar venjur um ástand leiguhúsnæðis við afhendingu þess,“ segir um ástand hússins.

Lágreistari skemman hér til vinstri er skemman sem brann.Vísir/Viktor Freyr

Þá segir að Truenorth sé skylt að fara í hvívetna með hið leigða og lóð þess á þann hátt sem samræmist góðum og viðteknum venjum um umgengni hreinlæti og hollustuhætti.

Félaginu séu óheimilar allar breytingar á hinu leigða án samþykkis borgarinnar. Allar endurbætur á hinu leigða verði eign leigusala að samningstíma loknum nema um annað sé samið.

„Vegna skaðaminnkunar- og öryggissjónarmiða er leigutaka óheimilt að nota blá ljós á salernum í hinu leigða húsnæði.“

Engin ábyrgð á tjóni

Þá segir að Truenorth annist allar tryggingar á eignum sínum í hinu leigða húsnæði, til að mynda húseigendatryggingu.

„Leigusali ber ekki ábyrgð á tjóni er kann að verða á eignum leigutaka í hinu leigða húsnæði vegna óhapps, svo sem vatnstjóns, elds, reyks og þess háttar. Leigutaka ber að fara varlega með eld og hættuleg efni í húsinu og gæta þess að ekki stafi hætta af rafleiðslum, vélum eða öðrum munum sem eru á hans vegum.“

Leigusamninginn má sjá í heild sinni í tengdum skjölum hér að neðan.

Tengd skjöl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×