Sport

Bærinn í Sviss þar sem barinn brann hýsir Ólympíu­leikana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá mynd frá minningarathöfn í Crans-Montana þar sem barinn brann með miklu mannfalli.
Hér má sjá mynd frá minningarathöfn í Crans-Montana þar sem barinn brann með miklu mannfalli. Getty/Harold Cunningham

Svissneski skíðabærinn Crans-Montana, þar sem mannskæður bruni varð á bar á fyrsta degi ársins, mun halda alpagreinakeppni Ólympíuleikanna árið 2038.

Innan við tveimur vikum eftir brunann á Le Constellation, þar sem fjörutíu létust og 116 aðrir slösuðust, hafa forsvarsmenn umsóknarinnar sagt að sveitarfélagið sé lykilstaður í tillögum þeirra fyrir Vetrarólympíuleikana eftir tólf ár.

Vetrarólympíuleikarnir 2026 fara fram í Mílanó og Cortina í næsta mánuði, eftir fjögur ár verða þeir í frönsku Ölpunum og árið 2034 verða þeir haldnir í Salt Lake City í Bandaríkjunum.

Ekkert annað land fær að bjóða í leikana

Alþjóðaólympíunefndin hefur veitt Sviss forgangsstöðu, sem þýðir að ekkert annað land fær að bjóða í leikana á meðan Sviss lýkur við tillögu sína. Nema eitthvað óvænt komi upp á mun landið því halda leikana árið 2038. Guardian segir frá.

Á mánudag staðfestu skipuleggjendur að Crans-Montana myndi halda keppnisgreinar sem hluta af áætlun þeirra um að halda keppnir víðs vegar um landið eftir tólf ár til að forðast að nota skattfé í byggingarframkvæmdir.

Ákvörðunin kemur ekki á óvart

Ákvörðunin kemur ekki að öllu leyti á óvart í ljósi þess að Crans-Montana mun halda heimsmeistaramótið í alpagreinum á næsta ári, auk heimsbikarmóta eftir þrjár vikur, fyrir Ólympíuleikana í Mílanó-Cortina.

Eigandi barsins og eiginkona hans eiga yfir höfði sér ýmsar hugsanlegar ákærur, þar á meðal fyrir „manndráp af gáleysi“, vegna brunans sem er talinn hafa kviknað í kjallaranum þegar stjörnuljós komust í snertingu við hljóðeinangrunarfroðu í loftinu.

„Við keppum fyrir þær“

Í síðustu viku tileinkaði svissneska skíðakonan Camille Rast sigur sinn í stórsvigi á heimsbikarmóti fórnarlömbum brunans. Rast sló tvisvar á svarta sorgarbandið á vinstri upphandlegg sínum eftir sigurinn og sagði: 

„Í vikunni varð hörmulegt slys í heimabæ mínum og ég hugsa til þessara fjölskyldna. Við keppum fyrir þær,“ sagði Camille Rast.

Gert er ráð fyrir að bobbsleðakeppnin árið 2038 fari fram í St. Moritz, skíðastökk í Engelberg og skíðaskotfimi í Lenzerheide. Íshokkí yrði spilað á leikvöngum í Zürich og Zug, en sumir leikir færu til Lugano þar sem ítölskumælandi svæði landsins yrði með.

Á meðan mun Lausanne, heimaborg Alþjóðaólympíunefndarinnar, halda opnunarathöfnina, listskauta og skautahlaup á stuttum brautum fyrir það sem verða fyrstu Vetrarólympíuleikarnir í Sviss síðan Ólympíuleikarnir í St. Moritz voru haldnir árið 1948. Höfuðborgin, Bern, er áætluð fyrir lokahátíðina.

Annars staðar mun Genf halda skautahlaup og krullu – í Palexpo-sýningarhöllinni þar sem Davis-bikarinn í tennis og árlegt hestamót í stökki hafa farið fram – og verður miðstöð fyrir alþjóðlegar útsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×